Utanríkisráðherra Úkraínu og æðsti stjórnarerindreki, Dmytro Kuleba, er í Peking til að ræða við leiðtoga Kína. Ætlunin er að hluta til að fá Kínverja til að draga úr efnislegum stuðningi sínum við Rússa en samtímis að fá Kínverja inn í samningaviðræður um varanlegan frið.
Þetta er í fyrsta skipti síðan í febrúar 2022 sem Kuleba heimsækir Kína. Forseti landsins, Xi Jinping, sagði í heimsókn Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, til Peking fyrir nokkrum vikum, að heimsveldi ættu að aðstoða Rússa og Úkraínu við að hefja beinar friðarviðræður að nýju.
Vilja binda enda á stríðið
Kuleba ræðir við kínverska embættismenn, hvernig þeir geta aðstoðað við að binda enda á yfirstandandi stríð við Rússland. Tengsl Úkraínu við Kína hafa styrkst eftir að stríðið braust út.
Ólíkt Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum – sem hafa ausið peningum og vopnum til Úkraínu, þá hefur Kína verið hlutlaus aðili í stríðinu. Aðildarríki Nató hafa á hinn bóginn gagnrýnt aukið samstarf Kína við Rússland sem mikilvæga líflínu fyrir áframhaldandi stríð gegn Rússlandi. Þeim ásökunum hafa Kínverjar alfarið hafnað.
Þvert á móti þá hefur Kína reynt að miðla málum í stríðinu og sent samningamanninn Li Hui mörgum sinnum til Evrópu í því skyni.
Að sögn stjórnvalda í Kænugarði á heimsókn Kuleba að miða að því „hvernig hægt sé að stöðva áframhaldandi yfirgang Rússa, auk hugsanlega þátttöku og hlutverk Kínverja til að ná varanlegum og réttlátum friði við Rússland.”
Vesturlönd hunsuðu friðartillögur Kínverja
Kína birti skjal í fyrra, þar sem kallað var eftir pólitískri lausn á deilunni. Vestræn ríki hunsuðu tillögurnar, þar sem þær gerðu ráð fyrir að Rússar héldu stórum hluta landsvæðis í Austur Úkraínu.
Kínverskir ráðamenn hafa stöðugt hafnað öllum fullyrðingum um, að þeir styðji stríðsrekstur Rússa og saka þess í stað Vesturlönd um að kynda undir átökin með áframhaldandi vopnasendingum til Úkraínu.
Kína tók ekki þátt í „friðarfundinum” í Sviss og mótmælti því, að rússneskum fulltrúum var ekki boðið. Á leiðtogafundinum hvatti Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, kínversk stjórnvöld til að taka þátt í þróun friðartillagna.
Tengsl Kína við Rússland
Kína og Rússland hafa aukið efnahagslega samvinnu landanna sem hefur gagnast Rússum t.d. þegar Vesturlönd lokuðu alþjóða bankakerfinu á Rússa.
Bandaríkin hafa hótað að setja viðskiptahömlur á banka sem aðstoða Rússa vegna viðskiptabanns Vesturlanda. Bandaríkin og ESB ásaka Peking fyrir að selja búnað til Rússlands fyrir hergagnaframleiðslu landsins.