Dragið til baka Bókun 35 – látum reyna á EFTA-dómstólinn

Icelandic flag waving in the wind

Hjörtur J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðingur skrifar grein um Bókun 35 í Morgunblaði dagsins. Vitnar Hjörtur í álit lögmanna sem flestöllum ber saman að Bókun 35 gangi gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Hjörtur bendir á að verði Bókun 35 samþykkt er um fyrir fram uppgjöf Íslands að ræða án þess að lagaleiðin verði reynd eins og þjóðin valdi að gera á farsælan hátt í Icesave.

Nú er ekki saman að líkja, því í Icesave fjallaði málið um tryggingar á innistæðum viðskiptavina bankanna sem hrundu. Það kerfi var aldrei hannað til að standast allsherjar fjármálahrun eins og á Íslandi. Núna er málið EES-samningurinn og hvernig ber að túlka hann. Hjörtur J. skrifar:

„Formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, gerði að umtalsefni í umræðum um frumvarp utanríkisráðherra á Alþingi 18. september að í stað þess að samþykkja frumvarpið yrði látið reyna á málið fyrir EFTA-dómstólnum. Ljóst er að frumvarpið felur í sér fyrirfram uppgjöf gagnvart kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), ákæruvaldsins í málinu, enda efnislega algerlega komið til móts við þær. Ef ekki myndi stofnunin einfaldlega halda samningsbrotamáli sínu gegn Íslandi til streitu. Tal Þorgerðar um að frumvarpið tryggi forræði Íslands á málinu stenzt þannig enga skoðun. Fari málið fyrir EFTA-dómstólinn er í það minnsta möguleiki á því að niðurstaðan verði Íslandi hagfelld en verði frumvarpið samþykkt verða þeir möguleikar að engu gerðir….“

„Hægt væri að höggva á þann hnút sem skapazt hefur vegna frumvarps utanríkisráðherra með því að málið fari þannig til EFTA-dómstólsins og varnir verði enn fremur teknar upp að nýju líkt og gert var að lokum í Icesave- málinu. Í því felst ekki andstaða við EES-samninginn heldur er með því þvert á móti verið að nýta þau verkfæri sem felast í samningnum til þess að leiða mál tengd honum til lykta og fá úr þeim skorið. Með því yrði enn fremur komizt hjá óþarfa átökum í þinginu. Bæði þeir sem hlynntir eru frumvarpi utanríkisráðherra og andsnúnir því ættu að geta sameinazt um þá leið.“

Hjörtur Guðmundsson ljáir heilbrigðri skynsemi rödd sína með þessum skrifum. Vonandi, en ósennilegt, er að valkyrjuflokkarnir ljái þessari rödd eyru. Frekar má búast við að valkyrjurnar böðlist á þinginu með þjösnaskap til að koma Bókun 35 í gegn og noti kjarnorkuákvæðið í annað sinn með tilstuðlan forseta Íslands sem vill breyta stjórnarskránni til að koma í veg fyrir „ný met í málþófi á Alþingi.“

Með Bókun 35 yrði endanlegur sigur ESB yfir Íslandi unninn, þjóðin verður einungis þræll ákvarðanatöku í Brussel. Komandi þjóðaratkvæðagreiðsla yrði aðeins upp á punt svo þrællinn fái tækifærið að lúta drottnara sínum opinberlega höfði:

„Já, frú, þér skal ég þjóna eins og líf mitt og limir leyfa um aldur og ævi.

Fara efst á síðu