Breska ríkisútvarpið hefur ítrekað verið sakað um vinstri slagsíðu en enginn á þeim bæ kannast við að hafa nokkru sinni rangt fyrir sér. Núna hefur borist uppljóstrun um að BBC hagræddi ræðu Bandaríkjaforseta 6. janúar 2021 til að láta líta svo út, að hann hafi hvatt til óeirðanna í Washington.
Þáttur BBC, Panorama, sem var sýndur viku fyrir bandarísku kosningarnar í október síðastliðnum villti algerlega um fyrir áhorfendum með því að sýna Trump þar sem hann var að segja stuðningsmönnum sínum að hann myndi fara með þeim í þinghúsið til að „berjast eins og andskotinn.“ Í raunveruleikanum sagðist Trump fara með þeim „til að láta rödd ykkar heyrast friðsamlega og af þjóðrækni.“
Afbakaða myndskeiðið er dregið fram í dagsljósið í 19 blaðsíðna skjali um hlutdrægni BBC sem fyrrverandi meðlimur í staðlanefnd fyrirtækisins tók saman og gengur núna um meðal ríkisstofnana. Í skjalinu segir að þátturinn hafi látið Bandaríkjaforseta „segja hluti sem hann sagði aldrei í raun“ með því að skeyta saman myndhluta frá upphafi ræðu hans við eitthvað sem hann sagði næstum klukkustund síðar.
Fyrir utan að breyta orðum Trumps þá sýndi þátturinn einnig menn með fána í höndum ganga í átt að þinghúsinu eftir að forsetinn talaði „sem skapaði þá mynd að stuðningsmenn Trumps hefðu tekið undir kall hans til vopna.“ Reyndar var myndbúturinn tekinn áður en Trump hafði einu sinni byrjað mál sitt.
Þá er einnig fullyrt að framkvæmdastjórar og stjórnarformaður BBC hefðu hunsað og vísað á bug mörgum alvarlegum kvörtunum frá eftirlitshópi fyrirtækisins.
Uppljóstrunin fékk elsta son Donalds Trumps, Donald Trump yngri, til að bregðast við:
„Falsfréttamennirnir í Bretlandi eru nákvæmlega jafn óheiðarlegir og fullir af skít eins þeir eru hérna í Ameríku!!!“

Samtímis greinir The Telegraph frá því að það muni brátt birta frekari útdrætti úr minnisblaðinu þar sem BBC er einnig ásakað um hlutdrægni í umfjöllun sinni um stríðið á Gaza og um „virka ritskoðun“ á umfjöllun um umræðuna um transfólk.
Skjalið er sagt vekja upp alvarlegar spurningar um siðleysi á BBC, hvernig það hefur áhrif á hlutleysið og hvernig stjórnendur, þar á meðal forstjórinn Tim Davie, eru sakaðir um að hunsa sannanir um hlutdrægni.
Íhaldsflokkurinn hefur kallað eftir tafarlausri rannsókn á því hvernig stóð á því að leyft var að sýna heimildarmyndina Panorama.
