Eldur Smári Kristinsson, alþjóðlegur fulltrúi LGB-samtakanna (áður Samtökin 22) sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna dóms í máli hans gegn Ríkisútvarpinu, þar sem RÚV var sýknað af grófri íhlutun gegn Eldi Smára að honum fjarstöddum í því skyni að koma höggi á Lýðræðisflokkinn. Forsaga málsins er að Eldur Smári var í framboði fyrir Lýðræðisflokkinn og hann hefur barist fyrir réttindamálum samkynhneigðra og fylgir ekki transhugmyndafræði Samtakanna 78 sem pólitíska elítan hefur tekið til sín sem trúarbrögð í stað almennrar skynsemi og kristinnar siðvenju. Eldur hefur gagnrýnt þá sem breiða út að kyn geti verið óútskýranlega mörg eða það sem viðkomandi dettur þá stundina í hug, og að fólk geti fæðst í „vitlausum” líkama. Eldur Smári heldur því fram að kynin séu einungis tvö eins og Snorri Másson og fylgir þar Hæstarétti Bretlands. Mögulega þarf málið að fara alla leið upp í Hæstarétt, svo Eldur fái uppreisn æru.
Í opinberu viðtali við formann Lýðræðisflokksins, Arnar Þór Jónsson lögmanns, dró fréttamaður RÚV upp mynd af Eldi Smára sem manni sem væri að mynda börn og fólk í leyfisleysi og í annarlegum tilgangi á skólalóð. Fullyrti RÚV án nokkurra skýringa að lögreglan hafði verið kölluð á vettvang til að fjarlæga Eld Smára sem gaf þá mynd að Eldur Smári hefði gerst brotlegur við lög og gæti jafnvel verið andlega brenglaður. Meiningin var að koma Arnari Þór formanni Lýðræðisflokksins úr jafnvægi, sem hafði enga hugmynd um hvað RÚV var að tala um í beinni útsendingu en sú aðgerð RÚV mistókst enda Arnar Þór sallarólegur og notaði tækifærið til að taka undir með Eldi Smára að kynin væru tvö. RÚV vanærði opinberlega persónu Elds Smára fyrir framan alla landsmenn og hefur meinað Eldi Smára að koma til viðtals til að útskýra málið. Með því að meina Eldi Smára að koma opinberlega fram og skýra mál sitt og segja frá starfi samtakanna sem hann var í forystu fyrir, hefur RÚV meinað Eldi að vera sú opinbera persóna sem dómurinn byggir á að Eldur Smári sé. Að RÚV var sýknað og málskostnaður dæmur á Eld Smára sýnir, hversu erfitt eða ómögulegt það er fyrir einstakling að vinna mál gegn RÚV. Eldur íhugar í framhaldinu hver næstu skref hans verða.
Uppfært: Fjölmiðlar erlendis sýna dómnum mun meiri áhuga en fjölmiðlar innanlands og mun Þjóðólfur fylgjast með og segja frá málinu. Hér eru viðbrögð sem Eldur birti í kvöld á Facebook vegna málsins:

Yfirlýsing Elds Smára Kristinssonar:
Í dag féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli mínu gegn Bergsteini Sigurðssyni og Ríkisútvarpinu ohf. vegna ummæla sem féllu í sjónvarpsþættinum Forystusætið á RÚV í aðdraganda alþingiskosninganna 2024. Dómurinn sýknaði stefndu af kröfum mínum um miskabætur og dæmdi mér að greiða málskostnað. Ég er djúpt vonsvikinn með niðurstöðu dómsins. Ég tel að ummælin sem féllu hafi verið röng, villandi og meiðandi í minn garð, og að þau hafi brotið gegn æru minni og friði. Í ummælum Ríkisútvarpsins var ég ásakaður um háttsemi sem gæti varðað við lög, og mér var gert upp að mynda börn og starfsfólk á skólalóð. Ummælin voru látin falla á viðkvæmum tíma í kosningabaráttu og á vettvangi sem nýtur sérstaks trausts almennings.Í lögum um Ríkisútvarpið stendur m.a. að:
„Ríkisútvarpið skal sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.“
Enn fremur segir í lögum:„Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:
1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.“
Ég hef alltaf staðið fast við lífsskoðanir mínar, sem byggja á því að einungis séu til tvö kyn, og tel að frjáls umræða um slík mál eigi að vera vernduð, en ekki skrumskæld eða rangtúlkuð.
Dómurinn lítur svo á að ég sé opinber persóna og veitir því Ríkisútvarpinu aukið svigrúm vegna þess.
Ég vil taka það fram að Ríkisútvarpið hefur aldrei aflað neinna gagna eða upplýsinga frá mér eða LGB Samtökunum (áður Samtökin 22) þegar það hefur fjallað um mig, LGB Samtökin eða tengd málefni.
Þar að auki hefur RÚV aldrei svarað tölvupóstum frá mér eða téðum samtökum hvorki þegar farið hefur verið fram á andmælarétt eða leiðréttingar á umfjöllunum þess.
Ríkisútvarpið hefur að mínu mati stórlega vanrækt skyldur sínar er kemur að því að fjalla hlutlægt um álitamál sem deilur eru um í samfélaginu.
Það er bein ógn við lýðræðið og á skjön við þau gildi sem lýðræðisleg samfélög vilja láta þekkja sig við.
Ég íhuga næstu skref mjög vandlega og mun ráðfæra mig við lögfræðinga mína og aðstandendur áður en ákvörðun verður tekin um frekari aðgerðir, svo sem áfrýjun til æðra dómsstigs. Ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í þessu ferli og held áfram að berjast fyrir þeim gildum sem ég trúi á.
Með virðingu,
Eldur Smári Kristinsson
3. nóvember 2025
