DJÚPRÍKIÐ ÍSLAND

Íslandi stendur ekki aðeins hætta af stórveldi meginlandsins sem ásælist auðlindir landsins til sjávar og sveita, ókjörnir embættismenn ríkisins hafa hreiðrað um sig í áratugi og gert lýðræðislega kjörnum embættismönnum erfitt fyrir að koma pólitískum málum sínum í gegn. 

Í nýjum þætti Ísafoldar ræða þau Íris Erlingsdóttir og Gústaf Skúlason við Arnar Þór Jónsson, lögmann og formann Lýðræðisflokksins um ástandið í stjórnmálunum á Íslandi. Arnar þór Jónsson skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni „Alþingi Íslendinga eða afgreiðsluskrifstofa ESB?“ þar sem hann ræðir hættuna á þeim þingsköpum sem vaxa fram við sjálfkrafa lagaþýðingar frá ESB. Oft er um að ræða innihald sem kjörnir þingmenn kynna sér ekki einu sinni eða vita um hvað er en öllu hleypt í gegn engu að síður. Greinin er upplögð sem kennsluefni fyrir komandi kynslóðir til skilnings á því, hvað fór úrskeiðis.

Breytti djúpríkið bréfi Gunnars Braga Sveinssonar um afturköllun umsóknarinnar til ESB?

Ræddi Arnar meðal annars um yfirlýsingar Ursulu von der Leyen um að Ísland væri enn umsóknarríki sem er á skjön við það sem flest allir héldu eftir uppsagnarbréf Gunnars Braga Sveinssonar fv. utanríkisráðherra til ESB þann 12. mars 2015. Arnar Þór segir að misræmi sé í enska textanum sem sendur var til Brussel og þeim íslenska sem þjóðin fékk að sjá. Hann vill að bréfin verði birt hlið við hlið svo fólk átti sig á hver munurinn er. Segir Arnar Þór ekki útilokað að enska textanum hafi verið breytt af ókjörnum embættismönnum utanríkisráðuneytisins til að svo liti út að einungis væri um hlé á aðildarviðræðum að ræða en ekki uppsögn umsóknarinnar. Reynist það rétt er um sviksamleg störf embættismanna utanríkisráðuneytisins að ræða sem þjóna öðrum herrum en lýðræðislega kjörnum valdhöfum. Sannkölluðum embættismönnum djúpríkisins sem sjá til þess að lýðræðislega kjörnir embættismenn komi ekki þeim málum að sem þjóðin kaus þá til að gera.

Ísland vantar stjórnlagadómstól

Stjórnarskráin er síbrotin en ekkert gert, ráðherra skrifar undir breytta bindandi utanríkisstefnu Íslands sem aðlöguð verður að utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Ekki mun meirihluti þings í gíslingu evrópusambandssinna víkja ráðherra úr starfi sem vinnur í trúnaði við ESB. Það mun þjóðin hins vegar gera næst þegar tækifæri gefst í almennum þingkosningum. Spurningin er hversu miklum skaða valkyrjunum tekst að valda þjóðinni í millitíðinni. 

Íris Erlingsdóttir vísaði til stjórnarskrárinnar og laga um þá stjórnskipun að enginn þingmaður eða ráðherra geti bundið hendur landsins í samningum við erlent ríki. Að senda þingmenn í sumarfrí og lauma inn bindandi samningum um sjávarútvegsmál, öryggismál og utanríkisstefnu landsins og kalla það „viljayfirlýsingar“ eru brot á stjórnarskránni, þingsköpum og ómælanleg svik við kjósendur í landinu.

Arnar Þór sagði ástandið sýna þörf á stjórnlagadómstól sem getur tekið fyrir mál og skorið úr um vafaatriði og hvort þau hlíti stjórnarskrá lýðveldisins eða ekki. Það reglugerðafargan sem vélrænt er skellt yfir þjóðina frá ESB skerðir athafnafrelsi landsmanna og eykur skriffinnskukostnað. Arnar Þór sagði:

„Vanvirðingin sem því miður ráðamenn Íslands sýna stjórnarskránni daglega er býsna alvarleg…það hefði verið nær að Íslendingar hefðu kallað þetta grunnlög eins og Svíar til dæmis gera… ekkert lagaákvæði, engir samningar og engar athafnir ráðamanna mega fara gegn þessum grundvallarlögum.“

Djúpríkið hefur RÚV á sínum snærum

Fjölmiðlar, svikulir stjórnmálamenn og embættismenn íslenska djúpríkisins hygla sjálfum sér á kostnað þjóðarinnar. Þeirra vegna má ekki ræða mörg mál og þöggun ríkir, almenningur má ekki vita sannleikann.

Landsmenn eru skattpíndir fyrir einsleitar rúv-fréttir sem eru eins og skólp úr bilaðri skólpleiðslu og landsmenn skildir eftir með fýluna. Vók kemur landsmönnum í heilaþvegið mók og djúpríkið hlær og fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.

Litlu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur er kosinn, sex hliðar teningsins sýna alltaf sömu niðurstöðu þegar honum er kastað. Eins mála flokkar og einskis mála flokkur hafa völdin og verja og smyrja hver aðra. 

Spurður um fyrirætlanir Lýðræðisflokksins segir Arnar Þór Jónsson:

„Allt sem Lýðræðisflokkurinn hefur varað við er að raungerast. Lýðræðisflokkurinn er að leggja mat á hvað hægt er að gera. Það er nauðsynlegt að Lýðræðisflokkurinn bjóði sig fram aftur.“

Konan mín er farin að kalla mig Geir Waage

En víkingar Íslands eru að vakna, þökk sé verndara íslenskra karlmanna, sem hvetur þá til dáða. Þá er gott að þeir láti sér vaxa skegg eins og hin góða fyrirmynd séra Geir Waage, pastor emeritus, gerir. Arnar Þór segir kankvís:

„Ég læt mér vaxa skegg eins og Geir Waage. Konan mín er farin að kalla mig Geir Waage.“

Smelltu á spilarann hér að neðan til að horfa á þáttinn:

Fara efst á síðu