Auðveldlega hægt að spara 100 milljarða árlega

Jóhannes Loftsson hefur tekið fram vægast sagt athyglisverðar tillögur til sparnaðar hjá hinu opinbera. Þjóðólfur hefur áður birt grein hans „Er þjóðarsátt um fátækt ásættanleg?“ Hann er vægast sagt gagnrýninn á verklag stjórnmálamanna sem taka meira mið af eigin útliti, glæsileika glærusýninga, en að stunda vinnuna sína.

Reykjavíkurborg er áberandi í þeim vitleysisgangi að koma með hugmyndir og steypa í kerfislægt ferli áður en búið er að vinna grunnvinnuna við forsendur verkefna. Þannig er farið af stað með óhugsuð verkefni, óskatölur og ímyndaðan hagnað sem aldrei verður, því forsendurnar eru rangar frá byrjun.

Öfgar fæða af sér öfga

Jóhannes segir að hann hafi sérstaklega brugðist við þegar yfirvöld tóku sér alræðisvald í Covid-faraldrinum sem hafði áhrif á landsmenn alla. Hann hefur alltaf verið frelsisþenkjandi og vill að hlutir séu uppi á borðum svo hægt sé að ræða um þá. Hann nefnir sérstaklega að farið var út í öfgar með stjórnkerfið í faraldrinum. Þar hafi einræðisleg vinnubrögð verið innleidd sem hann segir að séu hættuleg lýðræðinu og bendir á að „öfgar fæða af sér öfga.“

Keyrði um þverbak með bólusetningu á börnum og þar sem engin gagnrýni var leyfð, þá stofnaði hann ásamt mörgum öðrum flokkinn Ábyrga Framtíð. Hann hefur unnið að því ásamt teymi flokksins að vekja fólk til umhugsunar og fá sannleikann upp á yfirborðið.

Stjórnmálamenn uppteknir af eigin glansmynd í stað þess að vinna störfin

Jóhannes segir að hann hafi hafið rannsóknir að opinberum framkvæmdum og komst að því, að mikill munur er á kostnaðaráætlun og endanlegu verði. Fann hann út að opinberar framkvæmdir fara að meðaltali 63% fram úr kostnaðaráætlun. Menn fara af stað með verkefni og fá fjármagn áður en þeir vita hvað þeir eru að gera.

Raunveruleiki stjórnmálanna víkja því frá settum gæðum í verklagi og vinnuferlum verkefna. Hoppað er yfir fyrsta þáttinn í verkferlinu sem hefur áhrif á alla aðra þætti sem koma síðar í keðjunni. Síðan er reynt að laga til misfellurnar eftir á, þegar áætlanir standast ekki og málin komin í tóma vitleysu eins og iðnaðarbyggingin í íbúðahverfi í Breiðholti er nýjasta dæmið um. Mörg fleiri slík dæmi má nefna eins og til dæmis Braggamálið, Borgarlínu og Sundabraut.

Verið að búa til fátækt á Íslandi

Með slíkri sóun er verið að framleiða fátækt á Íslandi. Það eru gömul sannindi og ný, að það er ekki hægt að eyða sömu krónunni tvisvar sinnum. Hann nefnir sérstaklega óréttlætið í því að hagsmunaaðilar sem hafa hag af því að húsnæðisverð sé sem hæst stýri framboði af lóðum í borginni sem tryggir hátt húsnæðisverð. Jóhannes lýsir Borgarlínunni og óskatölum borgarstjórnar um fjölgun farþega sem hann dæmir ónýtar. Hann bendir á að þegar farið var í svipaðar framkvæmdir í Bergen í Noregi og sporvagnar settir í borgarlínu þar, þá sýni reynslan að bílaumferðin hafi ekkert minnkað. Ástandið ætti að vera enn augljósara á Íslandi, þar sem flestir velja einkabílinn sem farartæki til að ferðast með. Tilkoma Borgarlínunnar þjóni í raun og veru einum tilgangi: Að halda fasteignaverði háu. Þeir sem þurfa svo að borga fyrir þessa loftkastala stjórnmálamannanna eru aðallega þeir fátæku sem verða enn fátækari fyrir vikið.

Glatað fé í grænum umskiptum

Jóhannes segir milljörðunum hent í niðurgreiðslu rafbíla sem einungis gagnist þeim efnameiri, því rafbílar eru dýrari en farartæki með brunahreyfli. Hann bendir einnig á að rafbílar búi ekki til neina orku heldur noti orku sem þá verður að vera til staðar. Svo sé þó ekki víða enda hefur sala rafbíla dregist svo mikið saman að bílaframleiðendur hafa farið aftur til baka í framleiðslu jarðefnisdrifinna farartækja. Stjórnmálamenn kvarta undan því hvað lítill peningur sé til fyrir vegaframkvæmdir en 150 milljarðar væri hægt að flytja til vegaframkvæmda ef ríkisstyrkur yrði afnuminn af rafbílum.

Jóhannes Loftsson segir eyðslu stjórnmálamanna með skattfé í svo kölluð „græn umskipti“ séu í raun trúarbragðaeyðsla. Vindmyllurnar eru þar framarlega í flokki.

Þurfum að fara að verðlauna ábyrgð

Jóhannes ræddi eyðslu í styrki til fjölmiðla og stjórnmálaflokka og bendir á hætturnar fyrir lýðræðið, þegar stjórnmálamenn geta stýrt skoðanamyndun gegnum fjölmiðla fyrir sig. Hann segir tíma kominn til að verðlauna fyrir ábyrgð. Hann telur að hæglega megi spara yfir 100 milljarða á ári og hann sendi tillögur sínar í samráðsgátt nýju ríkisstjórnarinnar.

Þjóðólfur hvetur yfirvöld, stjórnmálamenn og alla landsmenn til að kynna sér tillögur Jóhannesar Loftssonar. Þær geta leyst vandann sem óduglegir stjórnmálamenn hafa skapað og töluvert aukið hagsæld almennings.

Fara efst á síðu