Arnar Þór Jónsson formaður Lýðræðisflokksins gerir bókun 35 að umtalsefni í færslu á Facebook og minnir á skyldur þingmanna sem svarið hafa eið að stjórnarskránni til að koma í veg fyrir afhendingu á fullveldi Íslands til ESB með bókun 35. Athafnir ráðamanna sem brjóta gegn fullveldinu kunna að falla undir skilgreiningu á landráðum og hægt að saksækja hlutaðeigandi á grundvelli X. kafla hegningarlaga nr. 19/1940.
Arnar Þór Jónsson skrifar:
„Á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis sl. mánudag minnti ég þingmenn á að þeir sækja umboð sitt til íslenskra kjósenda. Í því umboði felst engin heimild til að afhenda stjórnartauma, ríkisvald og löggjafarvald, í hendur erlendra valdastofnana.
Ég tel að frumvarpið um bókun 35 sé ófullburða, vanhugsað og standist ekki gagnvart mikilvægustu grundvallarreglum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Því ber þingmönnum skylda til að stöðva frumvarpið í nefnd.
Takist það ekki ber þingheimi að kjósa gegn því að frumvarpið verði að lögum, því það felur í raun í sér aðför að stjórnskipun íslenska lýðveldisins.
Að öðrum kosti bregðast þingmenn því drengskaparheiti sem þeir hafa unnið að stjórnarskránni og væru með því, í reynd, að grafa undan henni eftir stjórnskipulega ólögmætum og ólýðræðislegum leiðum sem allt eins mætti líta á sem brot gegn öryggi og sjálfstæði lýðveldisins Íslands, sem jafna mætti við ólögmæta ríkisvaldsyfirtöku, sem ótvírætt hefði ófyrirsjáanlegar og mögulega grafalvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið allt.
Landráð er stórt orð, en vísar til þess þegar menn frema verknað sem miðar að því að „ráða íslenska ríkið undir erlend yfirráð.“
Þótt stjórnarskráin nefni landráð ekki sérstaklega þá leggur hún grunninn að völdum og ábyrgð (og þar með fullveldi) íslenska lýðveldisins.