Að dæla niður CO2 á Íslandi eru „strandaðar fjárfestingar“

Brjálæðisleg verkefni eins og að fanga koldíoxíð úr andrúmsloftinu og dæla niður í jörð á Íslandi af öllum stöðum með stöðugum eldgosum, eru dæmd sem „strandaðar fjárfestingar“ segir athafnamaðurinn Lars Bern í viðtali við Swebbtv. Hann og Mikael Willgert ræða grænu svikaverkefnin sem hafa kostað sænska skattgreiðendur og lífeyrisþega milljarða ofan á milljarða sænskra króna. Þetta er leikur fjárfesta sem skrapa saman peninga úr lífeyrissjóðum, bönkum og fá styrki frá ríkinu til að fjárfesta í grænum verkefnum eins og Northvolt og Stegra og setja síðan allt á hausinn og peningarnir hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þetta er sama formúla og íslensku bankasnillingarnir notuðu í fjármálahruninu, farið í lánaveiðar fyrir loftkastala-verkefni og síðan er allt sett á hausinn og peningarnir hverfa til „peningahimnaríkis.“

Í Svíþjóð hafa skattgreiðendur og lífeyrisþegar aldeilis fengið að finna fyrir þessum grænu fjármálaskúrkum í rafgeymafyrirtækinu Northvolt sem mjólkaði lífeyrissjóðina og fékk styrki frá ríkinu auk bankalána með ríkisábyrgð. Byggð var verksmiðja og gamalt drasl frá Kína sett upp til framleiðslu og allt markaðsfært sem hluti af grænu áætluninni. Áður en einn einasti rafgeymir fór til sölu, þá fór fyrirtækið á hausinn. Fjárfestarnir hlógu alla leiðina í bankann, því þeim hafði tekist að féfletta sænska lífeyrissjóði um geysilegar peningafjárhæðir og hirtu bankalán sem núna lenda á herðum sænskra skattgreiðenda.

Sama sagan er um Stegra sem sagt er að eigi að framleiða „grænt stál.“ Félagið fylgir sama munstri grænu víkinganna, mjólkar lífeyrissjóðina sem brjóta lög til að geta ausið fé í loftkastalann og fær himinháa ríkisstyrki og bankalán með ríkisábyrgð. Núna er félagið á barmi gjaldþrots og ekki byrjað að framleiða eitt gramm af „grænu stáli.“

Á Íslandi halda forystumenn Orkuveitunnar að dótturfyrirtækið Carbfix eigi eftir að moka inn gulli með því að dæla niður koldíoxíði niður í bullandi gap meginlandsfleka Ameríku og Evrópu sem Ísland flýtur á. Lars Bern segir það furðulegt að menn velji þetta svæði sem er eitt órólegasta svæði á heimskringlunni til að reyna að breyta koldíoxíði í stein. Mikael Willgert, Swebbtv, spyr eðlilega:

„Kemur þá ekki bara allt þetta koldíoxíð upp í næsta eldgosi?“

Carbfix í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og Mammoth í eigu svissneska Climeworks eru dæmi um loftkastala sem munu fara sömu leið og Northvolt og Stegra. Lars Bern vitnaði til fyrrum sænsks athafnamanns sem kallaði slík verkefni „strandaðar fjárfestingar“ og hann spáir að græna verkefnið á Íslandi muni fara sömu leið og enda fljótlega. Það eina sem heldur þessum verkefnum í gangi eru peningar lífeyrissjóða, ríkisstyrkir og ríkistryggð bankalán. Þegar upp er staðið og græna blaðran springur sitja lífeyrisþegar og skattgreiðendur uppi með tjónið sem verður gríðarlegt og skerðir möguleika ríkis og lífeyrissjóða að standa við skuldbindingar sínar til almennings. Climeworks hefur tekið inn yfir einn milljarð dollara í fjárfestingu en það dugir engan veginn fyrir kostnaði við koldíoxíðryksuguna á Íslandi. Fyrri vonir um 100 dollara kostnað fyrir að ryksuga eitt tonn af koldíoxíði er langt undan. Í staðinn hefur fyrirtækið að markmiði að lækka kostnaðinn niður í 300-350 dollara tonnið í framtíðinni. Hver raunverulegur kostnaður er neitar félagið að gefa upp þegar blaðamaður Dagens Industri hafði samband við félagið.

Mikal Willgert bendir á að ryksugan og steingerving koldíoxíðs á Íslandi sé ekki samkeppnisfært við verð á keyptum koldíoxíðréttindum sem eru undir 100 dollara á tonnið:

„Þetta er þrisvar til fjórum sinnum dýrara.“

Lars Bern svarar:

„Þessi markaður mun hverfa.“

Fara efst á síðu