Yfirlýsing Samtakanna 22 vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta varðandi transferli barna

Samtökin 22 hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau fagna nýrri tilskipun Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, um „Vernd barna gegn afskræmingum með lyfjum og skurðaðgerðum.“ Segir að síðan samtökin vorum stofnuð, fyrst sem LGB teymið, og svo í núverandi mynd þann 22.02.2022 hafi þau „barist gegn því að börn séu króuð af og sett í miðdepil svokallaðs „hinsegin“ aktívisma og aðstæður tengdar honum.“ Undir yfirlýsinguna (sjá pdf að neðan) ritar formaður samtakanna, Eldur Smári Kristinsson.

Segja Samtökin 22 vera staðföst í málflutningi sínum varðandi börn sem glíma við sjálfsvitundarvanda og unglingsstúlkur sem glíma við lélega sjálfsmynd af margvíslegum toga. Í yfirgnæfandi meirihluta eru þessi ungmenni að glíma við taugaþroskaraskanir, félagslega einangrun, áfallastreituröskun, trauma og fleira. Þessi hópur þarf því á sálrænni aðstoð að halda en ekki „fullorðnum einstaklingum sem telja honum trú um að hann gæti hafa fæðst í röngum líkama.

Samtökin 22 hafa verið sniðgengin í fjölmiðlum – sérstaklega RÚV

„Frá því við vorum stofnuð höfum við sem erum andlit samtakanna útávið verið rægð, smánuð og ofsótt. Félagið okkar hefur kerfisbundið verið sniðgengið í fjölmiðlum og þá sérstaklega þegar Ríkisútvarpið á í hlut. Stofnun sem samkvæmt lögum á að fjalla um mál frá ólíkum sjónarhornum. Samtökin 22 hafa ætið verið tilbúin að ræða við önnur samtök, heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld á heiðarlegan og opinskáan hátt.“

Tímabært að stöðva transferli barna á Íslandi

Í yfirlýsingunni eru Samtökin 78 gagnrýnd fyrir að vera í höndum kynja- og hinseginfræðinga sem láta sig hugmyndafræðina meira máli skipta en heilsu og velferð ungmenna. Síðan segir:

„Í ljósi þess að allt transferli barna hefur nú verið gert ólöglegt í Bandaríkjunum, landinu sem þessi hugmyndafræði er flutt til Íslands frá, er tímabært að við stöðvum þessa starfsemi á Íslandi strax áður en skaðinn verður meiri og skaðabótaskylda hins opinbera eykst.“

Segjast samtökin muni leita til erlendra stjórnvalda í skyni að auka þrýsting á íslensk stjórnvöld ef þau hætti ekki mannréttindabrotum á ungmennum. Síðan slá Samtökin 22 því föstu:

„Transferli barna eru bælingarmeðferðir við samkynhneigð“

„Allt transferli barna teljast til ÓGAGNREYNDRA meðferða“

„Að hamla eðlilegum kynþroska einstaklings er mannréttindabrot“

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan:

Fara efst á síðu