Enn og aftur titrar Evrópusambandið vegna víðtæks fjármálahneykslis. Sporin liggja beint til valdaelítunnar innan ESB og því er talsverður hiti í málinu. Politico greinir frá því að núna standi yfir umfangsmikil lögreglurannsókn og evrópski ríkissaksóknarinn rannsaki svik og peningaþjófnað úr sjóðum ESB. Hafa peningum verið stolið til að kosta kosningabaráttu einstakra valdamikilla þingmanna til ESB-þingsins. Aðallega liggur belgíski ESB-þingmaðurinn Manfred Weber undir ásökunum um þjófnað en hann er formaður stærsta stjórnmálahóps ESB-þingsins sem Von der Leyen er meðlimur í: „The European People’s Party,“
Evrópusambandið er útbíað í spillingu
Það er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem það skvettist yfir barma spillingarpottsins hjá sukkurum Evrópusambandsins. Fyrir tæpum tveimur árum sprakk bomban í „Qatargate“ spillingarhneykslinu í ESB. Fjöldi valdamikilla embættismanna innan ESB höfðu selt stöðu sína til landa eins og Katar, Máritaníu og Marokkó.
Qatargate er þó bara toppurinn á ísjakanum. Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur lýst því yfir að ESB sé stútfullt af spillingarmálum sem aldrei ná að komast upp á yfirborðið.
Nýjasta hneykslismálið varðar flokkshópinn „European People’s Party, EPP“ og formann hópsins, Manfred Weber (á mynd).
Glæpurinn sem er til rannsóknar er sagður hafa verið framinn í ESB-kosningunum árið 2019 þegar EPP greiddi út peninga til Manfred Weber sem hann notaði í eigin kosningabaráttu í Belgíu til ESB-þingsins. Að nota skattfé til að greiða fyrir eigin kosningabaráttu er ólöglegt og beinn þjófnaður.
Á að láta spillinguna viðgangast?
Verið er að rannsaka þrjá háttsetta menn innan EPP en tveir þeirra unnu að kosningaherferð Webers árið 2019. EPP neitar allri viðkomu að málinu án þess að koma með neinar haldgóðar skýringar. Einn af þeim sem hafa brugðist við er Gergely Gulyás, ráðherra skrifstofu forsætisráðherrans í Ungverjalandi, sem kom með beina fyrirspurn til EPP. Hann segir samkvæmt deilingu Zoltan Kovacs, talsmanni ungversku ríkisstjórnarinnar á X (sjá að neðan):
Gergely Gulyás, ráðherra skrifstofu forsætisráðherrans í Ungverjalandi:
„Er það rétt að EPP leyfir spillingu, ekki bara í sínum eigin röðum heldur einnig á ESB-þinginu og með evrópskum peningum, eða geta þeir á trúverðugan hátt vísað þessu á bug? Merkilegt nokk, þá höfum við ekki séð neina yfirlýsingu frá EPP.“
Rannsóknin sem nú stendur yfir gæti haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir Weber. Innan EPP er valdabaráttan hörð um hver eigi að leiða hópinn og andstaðan við Weber fer stöðugt vaxandi. Það að hann reyni að stjórna EPP og taki tvöföld laun er ekki vel séð af öðrum meðlimum. Ef það kemur í ljós að hann hafi sjálfur átt beinan þátt í þjófnaðinum gæti stjórnmálaferli hans verið lokið.
Upplýsingarnar um rannsókn saksóknara á spillingunni hjá stjórnmálahópnum EPP koma í kjölfar uppljóstrunar Viktor Orbáns um valdaránsáætlun Evrópusambandsins í Ungverjalandi. Markið framkvæmdarstjórnarinnar er að steypa Viktor Orbán af stóli og koma stjórnarandstöðunni til valda þvert á niðurstöður lýðræðislegra kosninga í Ungverjalandi og alfarið gegn vilja Ungverja sjálfra. Einn þeirra sem leiðir valdaránsáætlun ESB er Manfred Weber.