Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði á blaðamannafundi eftir loftárás Bandaríkjanna á kjarnorkuáætlun Írans, að Ísrael væri nálægt því að ná öllum markmiðum sínum í Íran. Hann tjáði sig einnig um áframhaldandi stríð gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas á Gaza og sagði að átökunum gæti lokið í dag – ef Hamas afhendir gísla og leggur niður vopn.
Markmið Ísraels í Íran er að stöðva eða skaða kjarnorkuáætlun landsins. Samkvæmt upplýsingum frá Ísrael eru til öruggar sannanir fyrir því að Íran sé að vinna við að þróa fram kjarnorkuvopn. Annað lykilmarkmið er að útrýma eldflaugaáætlun Írans – þar á meðal mannvirkjum og vopnabirgðum. Netanyahu sagði:
„Ég er algjörlega sannfærður um að þessi stjórn vill útrýma okkur. Þess vegna hófum við þessa aðgerð til að útrýma tveimur raunverulegum ógnum við tilvist okkar – kjarnorkuógninni og eldflaugaáætluninni. Við erum að nálgast marklínuna hratt, við erum mjög, mjög nálægt.“
Á blaðamannafundinum á sunnudagskvöld hélt Netanyahu því fram að loftárás Bandaríkjanna á kjarnorkustöðina undir fjallinu í Fordow hefði valdið miklu tjóni.
Hann lofaði að Ísrael færi ekki í langvarandi stríð gegn Íran en lagði áherslu á „þegar markmiðunum er náð, þá er aðgerðinni lokið og bardaganum hætt.“
Netanyahu telur að veiking Írans muni hjálpa Ísrael að ná markmiðum sínum í Gaza og jafnframt ryðja brautina fyrir fleiri friðarsamningum við önnur lönd í Mið-Austurlöndum.
„Við stefnum að bjartri framtíð – með öryggi, velmegun, von og friði.“