Drengurinn var yfirbugaður af nærstöddum og færður á brott af lögreglu eftir skotárásina (skjáskot SVT).
14 ára drengur hóf skothríð inni á verslunarmiðstöð í Kungsbacka við Gautaborg í október sl. Vegna aldurs er ekki hægt að refsa honum en núna hafa saksóknarar höfðað mál á hendur honum til að skýra tildrög skotárásarinnar og atburðarásina. Þetta er eitt af þeim málum sem sýna hvernig glæpaklíkur véla til sín börn til að fremja voðaverk vegna vægari refsingar.
Saksóknari Viktor Törneke segir í fréttatilkynningu:
„Það er merkilegt að svona ung manneskja fari og skjóti í verslunarmiðstöð um hábjartan dag.“
Þann 6. október 2024 var 25 ára gamall verslunarstarfsmaður skotinn í verslunarmiðstöðinni „Kungsmässan“ í Kungsbacka. 14 ára drengur var staðinn að skotárásinni og núna fer málið fyrir dómstól, því saksóknari vill safna saman öllum staðreyndum málsins einnig vegna annarra sem voru unga drengnum „til aðstoðar.“
Nærstaddir í verslunarmiðstöðinni yfirbuguðu drenginn sem lögreglan færði síðan í burtu. Sá særði komst lífs af þrátt fyrir alvarlega áverka. Viktor Törneke saksóknari, segir:
„Lögreglan hefur framkvæmt umfangsmikla rannsókn og kortlagt ítarlega það sem gerðist inni á verslunarmiðstöðinni en einnig að miklu leyti dagana fyrir skotárásina, sem þýðir að við höfum tiltölulega skýra mynd af atburðarásinni.“
Þrátt fyrir að hinn grunaði var 14 ára þegar skotárásin átti sér stað og því ekki hægt að sækja hann til saka, höfðar Törneke núna sönnunarmál til að fá úr því skorið hvort drengurinn hafi framið glæpinn sem felur í sér morðtilraun, gróft brot á vopnalögum og grófar ólöglegar hótanir.
Tveir aðrir voru einnig viðriðnir skotárásina: 15 ára piltur sem er grunaður um að hafa aðstoðað við morðtilræðið og er hann ákærður fyrir meðhjálp. Annar 23 ára karlmaður situr í gæsluvarðhaldi fyrir meðhjálp morðtilræðisins, gróft vopnalagabrot og að hafa tekið með sér ólögráða ungmenni í glæpaverk. Ákæra hans er til sérstakrar meðferðar fyrir héraðsdómi Gautaborgar.