Þjóðólfur óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!

Þjóðólfur er nýstofnaður miðill sem leit dagsins ljós í byrjun ágústs á þessu ári. Hallur Hallsson ritstjóri, þjóðkunnur fjölmiðlamaður og Gústaf Skúlason, fréttamaður í Stokkhólmi, Svíþjóð, slógu saman pokum sínum og stofnuðu miðilinn í kjölfar umróts á fjölmiðlamarkaðinum á Íslandi.

Það sem einkennir Þjóðólf og jafnframt skilur að frá mörgum öðrum miðlum, er að Þjóðólfur er óháður peningavaldi og flokksvaldi og er því frjáls og óháður í frásögn og umfjöllun staðreynda. Þjóðólfur stendur á þjóðlegum grunni og ver íslensk gildi, kristni, stjórnarskrána, lýðveldið, lýðræðið, málfrelsið og Ísland sem fullvalda þjóð. Frjáls og fullvalda.

Þjóðólfur hefur frá upphafi rutt braut í miklu hneykslismáli á Íslandi, hinu svo kallaða Fósturvísamáli . Þjóðólfur tekur málstað málfrelsis, mannréttinda og einstaklingsfrelsis og stendur á grundvelli lýðræðisins og lýðveldisins. Eða eins og segir í ávarpi Þjóðólfs við stofnun miðilsins:

Þjóðólfur kom fyrst út árið 1848 sama ár og Jón Sigurðsson [1811-1879] forseti skrifaði Hugvekju til Íslendinga. Friðrik VII Danakonungur hafði afsalað sér einveldi. Danir hugðust gera Ísland að héraði í Danmörku á Þjóðfundinum 1851. Undir forystu Jóns forseta lögðu þingmenn fram mótfrumvarp. Jón forseti vísaði í Gamla sáttmála við Noregskonung 1262. Stiftamtmaður Danakonungs, Trampe greifi sleit fundi en Jón forseti mælti þá hin fleygu orð: “Ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar, ” og viðstaddir tóku undir: “Vér mótmælum allir.” 

Þjóðólfur vill fullveldið heim, sameina alla Íslendinga undir merkjum lýðveldisins, frjáls og fullvalda þjóð sem virðir rétt þegna sinna til þess að tjá skoðanir og virða trú allra þegna í lýðfrjálsu landi. Þjóðólfur stendur vörð um helgi lífs, bæði kynin, frelsi einstaklinga, jöfnuð fyrir Guði skapara okkar, auðlindir í þágu þjóðar. Þjóðólfur stendur vörð um réttarríkið, lög og rétt allra landsmanna. Dagur er upp risinn að vinna erfiði …

Að svo mæltu þakkar Þjóðólfur fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar öllum landsmönnum Gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!

Fara efst á síðu