Varnir Úkraína eru við það að bresta og Nató undirbýr neyðarviðbragðsáætlun um að senda hermenn til bardaga í Úkraínu ef allt fer á versta veg. Það skrifar ítalska La Repubblica og vitnar í nafnlausa heimildarmenn innan hernaðarbandalagsins.
Grein í sósíaldemókratíska dagblaðinu La Repubblica, einu af stærstu dagblöðum á Ítalíu, hefur vakið alþjóðlega athygli. Þar upplýsa blaðamennirnir Tommaso Ciriaco, Anais Ginori og Brussel-dito Claudio Tito um „neyðaráætlun“ sem Nató er að vinna að sem grípa á til þegar og ef varnargeta Úkraínu hrynur.
Hernaðarlegt hrun
Samkvæmt leyniáætluninni telur Nató ekki lengur óhugsandi að hervarnir Úkraínu „hrynji.“ Ef slík atburðarás kemur upp mun hernaðarbandalagið að öllum líkindum senda her til aðstoðar Úkraínu. Segir að Úkraína megi alls ekki tapa stríðinu og skilaboðin til Pútíns eru þau, að það sé eitt að „fara djúpt inn í austurhlutann, annað að taka höfuðborgina eða blanda þriðja aðila inn í stríðið.“ La Repubblica leggur jafnframt áherslu á að Nató hafi enn sem komið er engar „stríðsáætlanir“ gegn Rússlandi.
Óttast þátttöku Hvíta-Rússlands
Eina „rauðu línan“ sem hernaðarbandalagið hefur sett fram, er hvort Rússar taki „þriðja aðila“ með í stríðið. Sérstaklega óttast heimildarmenn Nató að Hvíta-Rússland muni blanda sér í stríðið og hefja sókn úr norðri gegn Kænugarði. Árás sem talið er að Úkraína eigi erfitt með að verjast.
Önnur „rauð lína“ er „hernaðarleg ögrun“ gegn Eystrasaltsríkjunum, Póllandi eða Moldóvu. Það þarf ekki endilega að vera hernaðarinnrás, heldur til dæmis ef Rússar „prófa“ viðbrögð vesturvelda, skrifar La Repubblica. Segir blaðið að báðar þessar aðstæður séu óásættanlegar fyrir Nató og myndu leiða til þess að bandalagið tæki beinan þátt í stríðinu.
300.000 hermenn
Á síðustu tveimur árum er sagt að Nató hafi byggt upp 100.000 hermanna viðbragðssveitir sem er fjórföldun miðað við fyrir tveimur árum síðan. Þær eru staðsettar í Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Búlgaríu og Rúmeníu. Hluti viðbragðssveitanna er stöðugt tilbúin til bardaga og hægt að virkja hinar innan fárra daga.
The Telegraph skrifaði í vikunni að verið sé að þrefalda viðbragðssveitir Nató upp í 300.000 hermenn. Hafinn er undirbúningur á Ítalíu, Grikklandi og Noregi til að geta flutt hermenn og vopn frá Bandaríkjunum til austurs, í átt að vígstöðvunum í þeirri heimsstyrjöld sem sífellt nálgast.
Komi til stríðs gegn Rússlandi er sagt að fyrst og fremst verði flugherinn notaður og landherinn settur inn sem „síðasta skrefið í mögulegri stigmögnun.“
Jafnframt kemur fram svartsýni á hversu vel undirbúin Nató-ríki eru til að berjast í slíku „altæku stríði“ gegn Rússlandi. Til dæmis er talið að franski flugherinn sé með orrustuflugvélar sem endast einungis í tíu daga og eldflaugabirgðir yrðu tómar eftir aðeins tveggja daga bardaga, að sögn La Repubblica.