Evrópubúar verða að færa meiri fórnir fyrir Úkraínu. Meðal annars með því að nota lífeyrissjóði sína til að kaupa vopn fyrir landið. Það segir Rob Bauer, formaður hermálanefndar Nató: „Allir verða að skilja að þeir verða að leggja sitt af mörkum.“
Bauer gaf út þessa yfirlýsingu á herráðstefnu í Prag um síðustu helgi á vegum bresku hugveitunnar „International Institute for Strategic Studies.“ Í pallborðsumræðum sagði Bauer að „leiða“ þyrfti Evrópumenn til að fá þá til að skilja hinn „erfiða valkost“ sem Evrópa stæði frammi fyrir. Hann sagði:
„Ef við fjárfestum meira í varnarmálum og meira í Úkraínu, þá verður minna fé til að fjárfesta í öðrum hlutum. Þá hverfur hluti af lúxus okkar.“
Lífeyrissjóðirnir eiga að „fjárfesta í vopnum gegn Rússlandi“
Rob Bauer vill að allur vestræni heimurinn söðli yfir í stríðshagkerfi. Allt til að aðstoða Úkraínu og sigra nýgamla óvininn Rússland. Hann segir:
„Allir verða að skilja, að þeir verða að leggja sitt af mörkum.“
Bauer hvetur fleiri til að fjárfesta í vopnaiðnaðinum og segir að lífeyrissjóðir sem forðast slíkar fjárfestingar af siðferðilegum ástæðum séu að gera mistök og eigi að hugsa sig um. Hann segir að samfélagskerfi Vesturlanda verði eyðilagt nema að fjárfestingum verði beint yfir í vopnaiðnaðinn:
„Það gerir samfélög okkar sterkari. Lýðræðisríkin okkar. Það er ekki hægt að mæla það í peningum, en ef við gerum það ekki munum við eyðileggja kerfið okkar.“
„Mistök“ ef Donald Trump reynir að semja um frið
Í pallborðsumræðum er stríðið í Úkraínu borið saman við stríðið í Afganistan. Rob Bauer telur að ólíkt Úkraínu þá hafi Afganistan ekki hernaðarlegt mikilvægi fyrir Nató eða Vesturveldin:
„Ástæðan fyrir því að Nató tekur ekki virkari þátt í stríðinu í Úkraínu er sú, að Rússar eiga kjarnorkuvopn, svo það er ekki það sama og Afganistan. Ég er alveg viss um að ef Rússar hefðu ekki átt kjarnorkuvopn, þá værum við þegar í Úkraínu og hefðum rekið þá út.“
Bauer telur einnig að það séu mistök ef Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, reyni að ná skjótum friði við Rússland:
„Ég trúi því ekki að það sé í þágu Bandaríkjanna að Pútín komi út úr þessu sem sigurvegari.“
Takmarka ber tjáningarfrelsið og herða eftirlit ríkisins með einstaklingnum
Rob Bauer varar líka við því samfélagi þar sem hver sem er getur tjáð sig um hvað sem er. Hann varar við Elon Musk og segir hann vera víti til varnaðar um taumlaust málfrelsi:
„Ég er mikill stuðningsmaður málfrelsis en það er margt á Twitter sem er alls ekki að hjálpa samfélagi okkar.“
Rob Bauer telur líka að almenningur eigi að leyfa ríkinu að hafa eftirlit með sér og finnst undarlegt að fólk mótmæli því „að ríkið vilji horfa í símann þinn í tíu sekúndur.“ Hann segir að tæknifyrirtækin hafi nú þegar aðgang að símunum hvort sem er:
„Við höfum þegar gefið allt frá okkur. Þetta er fáránleg umræða um heilindi.“
Hér að neðan er myndbútur með ummælum yfirmanns Nató, Rob Bauers, og þar fyrir neðan eru pallborðsumræðurnar í heild sinni: