Dagens Nyheter greinir frá því að verðmunur á rafmagnsverði á mismunandi stöðum leiðir til þess að fyrirtæki í Suður Svíðþjóð sem stundum hafa þurft að greiða hundrað sinnum hærra rafmagnsverð en í Norður Svíþjóð, þurfa að segja upp starfsfólki og minnka reksturinn eða hreinlega að loka fyrirtækjunum. Í marsbyrjun sagði pappírsframleiðandinn Hylte Bruks AB upp 60 starfsmönnum. Forstjórinn Roger Bergström segir að fyrirtækið þurfi að borga 200 milljónum sænskra króna meira fyrir rafmagnið en ef fyrirtækið hefði verið staðsett fyrir norðan Gävle.

Bergström hefur reiknað út að rafmagnsreikningurinn er meira en helmingi dýrari helming af tímanum miðað við rafsvæði 2. Svíþjóð er skipt upp í fjögur rafsvæði samkvæmt orkubandalagi ESB og dýrast er rafsvæði 4 í Suður Svíþjóð. Í febrúar var verðið á svæði eitt 12,9 aurar (sek) á kílóvattstund. Á svæði 4 var verðið á sama tíma 103,9 aurar á kílóvattstund.
Fyrirtækið Hylte Bruks AB þarf að segja upp 60 af 270 starfsmönnum til að geta borgað rafmagnsreikninginn. Roger Bergström, forstjóri segir ástandið vera snarbilað, þegar svona mikill verðmunur á rafmagni eftir því hvar maður er í Svíþjóð. Fyrirtækið var lengi vel stærsti atvinnuveitandinn í sveitarfélaginu með 1.200 starfsmenn, en hefur minnkað vegna minnkandi eftirspurnar á dagblaðapappír. Í dag eru bara fjórar pappírsvélar í gangi sem framleiða pappírinn.
Hátt rafmagnsverð á svæði 4 hefur gert að áhættusamt er að fjárfesta í iðnaðarfyrirtækjum á svæðinu. Ronny Löfquist sveitarfélagsstjóri Hylte sveitarfélagsins segist bara heyra orðið rafmagnsverð í hvert skipti sem hann fer og hittir fólk. Hann notar hvert tækifæri sem hann getur til að gagnrýna verðfyrirkomulagið á rafmagninu í Svíþjóð. Hann segir:
„Af hverju eigum við að leggja hindranir í samkeppnisaðstöðuna innanlands? Við höfum lagt refsitolla á rafmagn innan eigin landamæra sem er snarbilað.“
Ástandið í Svíþjóð er afleiðing af skiptingu samkvæmt svæðaskipulagi og verðákvörðunar kílóvattstundarinnar á verðbréfamarkaðinum Nordpool, þar sem rafmagnsverðið er ákveðið mínútu fyrir mínútu. Svæði 4 fellur saman við svæði í Þýskalandi sem hafur áhrif á verðið á því svæði.
Ísland sem gerðist meðlimur í orkusambandi ESB með orkupakka þrjú fer sömu leið. Sjálfbært kerfi vatnsvirkjana og dreifikerfis í höndum Landsvirkjunar hefur verið eyðilagt og skipt upp og gert flóknara og þar með miklu dýrara.