Fullveldissinnar vilja frekar lög og reglur sem endurspegla þarfir Íslendinga, heldur en kröfur Evrópusambandsins

Guðmundur Franklín Jónsson hagfræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi skrifar á Facebook að komandi alþingiskosningar muni að hans mati snúast um vaxandi hugmyndafræðilegan ágreining alþjóðasinna annars vegar og fullveldissinna hins vegar. Guðmundur Franklin stofnaði Frjálslynda lýðræðisflokkinn sem bauð fram í alþingiskosningunum 2021. Guðmundur Franklín er ötull baráttumaður fyrir málfrelsi og lýðræði, sjálfsákvörðunarrétti og fullveldi þjóðríkja. Það er sama stefna og Þjóðólfur stendur fyrir. Þetta er stefna heilbrigðrar skynsemi gegn reglugerðafargani metnaðarsjúkra stjórnmálamanna sem sækjast eftir frama og frægð fyrir sjálfa sig á alþjóðavettvangi frekar en að starfa fyrir Íslendinga.

Þjóðólfur hafði samband við Guðmund Franklín sem staddur er erlendis og var ekkert sjálfsagðara en að fá að birta skemmtilega mynd og vitna í texta Guðmyndar. Myndin sem trúlega er gerð með aðstoð gervigreindar sýnir þá djúpu gjá sem hefur myndast í stjórnmálunum á milli venjulegra landsmanna og hirðarinnar „elítunnar“ sem sækist eftir aurum landsmanna og embætta innanlands sem síðan eru notuð sem stökkpallur í góðar stöður hjá alþjóðastofnunum.

Guðmundur Franklín Jónsson skrifar:

„Hugtökin Alþjóðasinnar og Fullveldissinnar endurspegla vaxandi hugmyndafræðilegan ágreining í nútíma stjórnmálum. Næstu kosningar á Íslandi koma m.a., að mínu mati að snúast um þessa tvo póla. Alþjóðasinnar styðja almennt aukið alþjóðlegt samstarf, efnahagslega samþættingu og áhrif alþjóðlegra stofnana. Þeir trúa á opin landamæri og aðrar alþjóðlegar tilskipanir, eins og reglugerðir gagnvart loftslagsbreytingum.“

„Fullveldissinnar leggja aftur á móti áherslu á mikilvægi þess að varðveita fullveldi þjóðarinnar, sjálfsákvörðunarrétt, standa vörð um hefðir og stjórn á eigin landamærum, orkuframleiðslu og dreifingu orku auk þess vilja fullveldissinnar takmarka erlenda íhlutun á löggjafavaldi Íslendinga. Þeir vilja frekar lög og reglur sem endurspegla þarfir Íslendinga, heldur en kröfur Evrópusambandsins.“

Fara efst á síðu