Þegar ég var í samstarfi við Fréttina, þá hafði ég samband við Hall Hallsson sem veitti góðfúslegt leyfi fyrir viðtal. Rétt í þann mund sem upptakan átti að hefjast bönkuðu verðir laganna á heimilisdyr Halls á Akureyri. Hallur segir:
„Lögreglan var nú bara í dyragættinni hérna áðan, það er að segja lögreglumenn héðan frá Akureyri. Þeir voru að boða mig í næstu viku til yfirheyrslu hér á Akureyri og það verða sendir lögreglumenn að sunnan til þess að yfirheyra mig….vegna skrifa minna um fósturvísamálið. Ég fæ ekki að sjá kæruna fyrr en í næstu viku.“
Einkennilegt að vera að blanda lögreglunni í skrif blaðamanns um málið
Það einkennilega við þetta er, að lögreglunni skuli verið blandað í málin. Hallur Hallsson er blaðamaður og megnið af þeim upplýsingum sem hann hefur komið með hafa komið fram áður. Hallur Hallsson hefur bara fylgt málinu eftir og lýst stöðunni sem næst verður komist í dag. Síðar í viðtalinu kemur fram, að þetta virðist vera stíll þeirra sem telja sig hafa mestan hag af því að hjónin Gunnar Arnarson og Hlédís Sveinsdóttir dragi til baka kæru sína um að DNA-rannsókn fari fram á þegar fæddum börnum til að fullreynt sé að þau hafi ekki orðið til með tæknifrjóvgun með fósturvísum hjónanna. Þessi ofstopi sem er aðför að starfsreglum blaðamanna er bara framhald af þeim ofstopa og hótunum sem hjónin hafa mátt þola fyrir það eitt að spyrja um hvað hafi orðið um þá 19 fósturvísa sem þau telja sig eiga hjá Livio sem framkvæmdi tæknifrjóvgunina.
„Ógn við valdhafa á Íslandi“ að biðja um einfalda DNA-rannsókn
Samkvæmt Halli voru hjónin ásökuð um að „vera ógn við valdhafana á Íslandi.“ Kemur það í tilefni móttakenda fósturvísa sem grunur leikur á, að séu Hlédísar og Gunnars. Ef satt reynist, eins og einn uppljóstrari tjáði þeim hjónum, að fósturvísunum hafi verið stolið af þeim og síðan seldir áfram dýrum dómi, þá er um mjög alvarlegt afbrot að ræða. Margir aðilar geta ekki átt börn saman og þá verður leið tæknifrjóvgunar í mörgum tilvikum farin. Fyrir slíkt eru greiddar háar fjárhæðir. Þótt Gunnar og Hlédís telji sig vita hvaða börn gætu verið hugsanlegir afkomendur þeirra, er allsendis óvíst, ef það er raunin, að foreldrarnir sem keyptu fósturvísana hafa neina hugmynd um það. En því miður virðist raunin benda til hins gagnstæða, því Gunnar og Hlédís greina frá því, að ýmsir aðilar hafi haft samband hver við aðra vegna málsins.
Var afhent fölsuð sjúkragögn
Hallur greinir frá því, að brotist hafi verið inn í sjúkragögn hjónanna allt að 4 þúsund sinnum. Mörg slík innbrot voru gerð af erlendum læknum og læknanemum sem einhverra hluta vegna var nauðsynlegt að ná sér í gögn um málið. Spyrja má hvað búi að baki slíkum ofuráhuga, því í venjulegum málum á það sér ekki stað. En málið er langt frá því að vera venjulegt. Þegar hjónin báðu um að fá afrit af sjúkraskýrslum sem þau eiga rétt á, þá fengu þau falsaðar skýrslur. Hallur Hallsson segir:
„Í ársbyrjun 2015 er fundur á Landsspítalanum og þar eru æðstu menn spítalans meðal annars læknar. Þeir afhenda þá sjúkraskrár og segja að þetta séu þær. Það kemur í ljós, að þessar sjúkraskrár sem afhentar voru á landsspítalanum í janúar 2015 voru falsaðar. Þær voru falsaðar. Svo gerist það löngu síðar, að það er uppljóstrari sem sendir þeim hinar réttu sjúkraskrár eftir að þetta mál fer af stað.“
Málið allt einkennist af ofstopa fyrirtækisins til að koma í veg fyrir að hjónin Gunnar Arnarson og Hlédís Sveinsdóttir fái vitneskju um hið dularfulla hvarf fósturvísanna 19. Ekki benda þau viðbrögð sem núna senda lögregluna á eftir blaðaskrifum um málið til þess, að fyrirtækið hafi hreint mjöl í pokahorninu.
Alvöru blaðamenn á Íslandi mega fara að hugsa sig um, ekki síst Blaðamannafélagið, hvort „umsátur og einelti“ í nýlegri viðbót við almenn hegningarlög sé sérstaklega beint gegn málfrelsi á Íslandi. Blaðamannafélaginu ber að taka málið fyrir á fundi og gera um það ályktun.
Viðtalið er hér að neðan: