Upphafið að endalokum vindorkunnar

Í sameiginlegum pistli í „Affärsvärlden“ greina þeir Christian Sandström og Christian Steinbeck frá ástandinu í vindorkubransanum og fjárhagslegu tapi sænskra vindorkufyrirtækja. Ekkert bólar á hagnaði hjá vindorkufyrirtækjum, reksturinn sýnir háar taptölur á hverju ári og skuldafjallið stækkar með hverjum deginum. Útkoman er óhagstæð í heildina tekið og sýnir óhaldbæran grunn til að halda áfram með þessa tilraunastarfsemi.

Í grein sinni fara sérfræðingarnir Sandström og Steinbeck yfir stækkun vindorkunnar með ofsafengnum hraða í Svíþjóð og skrifa að það sé mat sænsku Orkustofnunarinnar að vindorkan „verði stærsti hluti allrar nýrrar raforkuframleiðslu sem þarf til rafvæðingar í Svíþjóð.” Sandström og Steinbeck fóru í gegnum ársskýrslur vindorkuvera fyrir árið 2023 og báru þær saman við ársskýrslur fyrri ára.

Sjö erfið ár

Greinarhöfundar skrifa:

„Kortlagningin byggir á ársskýrslum fyrir árin 2017–2023. Niðurstöðurnar hafa verið teknar saman í einstakan gagnagrunn með 91% af þeim 4.000 vindmyllum sem teknar voru í notkun á árunum 2011-2023. Gagnagrunnurinn inniheldur allar vindorkuvirkjanir þar sem vindorka er tilkynnt sérstaklega og þannig greinanleg. Með þessum gögnum fáum við þokkalega heildarmynd af því hvernig iðnaðurinn hefur þróast á tímabilinu.”

Árið 2023 var sjöunda árið í röð sem sænsku vindorkuverin töpuðu peningum. Ár 2023 nam tapið 4,6 milljörðum sænskra króna eftir fjármagnsliði. Árið áður nam tapið 4 milljörðum sænskra króna. Greinarhöfundar segjast hafa valið mælikvarða sem inniheldur allan kostnað fyrir utan skatta. Vindorkuver eru fjármagnsfrek og því þarf að taka með fjármagnskostnaðinn til að heildarmynd fáist.

12,2 milljarða velta leiddi til 4,6 milljarða taps sem er mínus 38% framlegð eftir fjármagnsliði. Afkoman var heldur lakari en fyrir ár 2022 sem var stærsta tapárið áður með mínus 36% framlegð. Ef tekin eru saman árin 2017-2023, þá nemur tap vindorkubransans samtals 17,8 milljörðum sænskra króna (um 230 milljörðum íslenskra króna). Framlegð sænskrar vindorku eftir fjármagnsliði hefur að meðaltali verið -35% á þessum árum.

Árlegt tap síðan 2017

Heildarveltan nam 50,6 milljörðum sænskra króna á árunum 2017-2023. Veltan árið 2023 var meira en þrisvar sinnum meiri en árið 2017. Miðað við veltu árið 2022 jukust tekjur um 10% árið 2023. Eftir því sem vindorkan hefur stækkað, þá hefur einnig tapið vaxið og skuldirnar aukist. Skuldirnar námu 23,2 milljörðum sænskra króna árið 2017 og voru komnar í 82,4 milljarða sænskra króna ár 2023.

Vaxandi skuldafjall vindorkunnar

Screenshot

Meðal þeirra fyrirtækja sem töpuðu hvað mest árið 2023 eru Markbygden Ett, Överturingen, Önusberget, Aldermyrberget og Åskälen. Samtals töpuðu þessi fyrirtæki 3,6 milljörðum sænskra króna. Þau skera sig úr bæði vegna stærðar vindorkuveranna og einnig fyrir að vera reknar með ótrúlega miklu tapi. Sameiginlegt með þessum fyrirtækjum er að þau hafa undirritað óarðbæra orkukaupasamninga svo kallaða PPA samninga „Power Purchase Agreements.” PPA þýðir að fyrirtækið semur við viðskiptavini um að útvega þeim ákveðið magn af raforku. Ef ekki er hægt að afhenda umsamið magn með eigin framleiðslu verður að kaupa rafmagn þess í stað á mörkuðum oft á dýru verði.

Greinarhöfundar skrifa:

„Við höfum áður sýnt fram á að arðsemisvandamál árin 2017-2022 voru ekki bundin við fá fyrirtæki heldur einkenna alla atvinnugreinina …. 61% vindmylla árið 2023 voru í tapfyrirtækjum.”

Raforkuframleiðsla með vindorku hefur nær tífaldast á árunum 2011-2023

Blaðið Affärsvärlden hefur áður sýnt fram á, að vindorka er stöðugur taprekstur vegna þess að hún getur ekki framleitt rafmagn, þegar það er eftirspurn eftir rafmagni heldur aðeins þegar vindur blæs. Þegar vindur blæs þá framleiðir vindorkan umfram raforku sem verður að nota vegna þess að það er ekki hægt að geyma hana. Þrátt fyrir þetta heldur stækkunin áfram.

Sænska orkustofnunin veit núna af fyrirhuguðum 1.487 vindorkuverum sem stendur til að reisa, flest yfir 200 metra há. 1.841 til viðbótar eru í undirbúningi. Hér er um vindorkuver á landi að ræða. Bilið á milli dýrrar raforku sem framleidd er í logni og ódýrrar raforku sem framleidd er þegar blæs mun aukast að sögn greinarhöfunda. Þeir skrifa:

„Spurningin er hvernig greinin á að halda lífinu og miðað við hvaða forsendur þessar fjárfestingar voru ákveðnar.”

Greinarhöfundar benda á að gagnagrunnur þeirra hefur stækkað frá 3000 vindmyllum upp í 3 621 vindmyllu sem er 91% af allri vindorku sem tekin var í notkun á árunum 2011-2023. Samkvæmt sænsku orkustofnuninni voru alls 5.508 vindorkuver í Svíþjóð árið 2023. Vindorkuver fyrir ár 2011 eru tiltölulega lítil, um 90% af raforkuframleiðslu með vindorku kom eftir ár 2010.

Greinarhöfundar komast að eftirfarandi niðurstöðu:

„Með auknum gagnagrunni miðað við fyrri greiningar breytast gögn okkar fyrir árin 2017-2022 einnig að vissu leyti. Hins vegar sjáum við engin veruleg frávik. Sú niðurstaða að um langvarandi óarðbæran iðnað er ræða stendur því óhögguð.”

Í rannsóknum sínum hafa þeir farið í gegnum ársskýrslur 2023 þeirra vindorkuvera sem eru í rekstri og síðan borið saman við niðurstöður 2017–2022. Niðurstöðurnar hafa síðan verið settar saman í einstakan gagnagrunn yfir 91% af þeim 4.000 vindmyllum sem teknar voru í notkun á árunum 2011–2023.

Vindorkuframkvæmdir munu leggjast niður

Niðurstöður sérfræðinganna er engum gleðiefni sem hefur fjárfest í vindorku sem leið til rafmagnsframleiðslu. Þetta sjá mörg sveitarfélög í Svíþjóð sem enn hafa neitunarvald um hvort vindorkuver verða staðsett á landsvæðum þeirra. Átök er á milli ríkis og sveitarfélaga um málið en fram að þessu hafa sveitarfélögin stöðvað að minnsta kosti 2.439 vindmyllur í 129 verkefnum á árunum 2014–2022. Búast má við að fleiri munu neita þátttöku í vindorkuverkefnum, þegar ljóst er orðið að vindorkubransinn er að verða sjálfdauður. (Sjá nánar pdf að neðan)

Fara efst á síðu