Þýskum skólum sagt að undirbúa börn fyrir hugsanlegar árásir Rússa

Að sögn þýska innanríkisráðuneytisins, þá eiga almannavarnir og stjórn á krepputímum að gegna stærra hlutverki í námskrám í skólum í Þýskalandi. Stjórnvöld í Þýskalandi kalla því eftir því að skólarnir byrji að undirbúa börnin gagnvart hugsanlegum árásum Rússa á landsvæði Nató. Embættismenn segja að sérstaklega verði að þjálfa börn vegna varnarleysis þeirra og undirbúa þau undir stríðsatburðarás sem er hluti af víðtækari viðleitni yfirvalda til að efla seiglu þjóðarinnar.

Innanríkisráðuneytið, undir forystu Nancy Faeser hvetur skólana til að taka inn almannavarnir í daglegt nám í barnaskólum. Talsmaður ráðuneytisins sagði við Handelsblatt:

„Miðað við núverandi öryggisþróun ættu almannavarnir að gegna stærra hlutverki í námskrám.“

Útspilið kemur í kjölfar mats leiðtoga þýska hersins og leyniþjónustunnar, þar á meðal Carsten Breuer, hershöfðingja þýska varnarhersins en hann sagði nýlega á öryggisráðstefnu í Berlín að „Rússland verði fært um að ráðast á landsvæði Nató á fjórum til sjö árum.

Roderich Kiesewetter, talsmaður öryggismála hjá kristdemókrötum sagði við blaðið, að börn yrðu að vera betur undirbúin fyrir árásir vegna fyrirhugaðrar kreppuþjálfunar barna í skólunum. Hann benti á Finnland sem fyrirmynd þar sem stríðsviðbúnaður hefur lengi verið innbyggður í námsskrár vegna nálægðar landsins við Rússland. Kieswetter benti á skort á skjólum, neyðarbirgðum og traustum samskiptum í hættuástandi og sagði:

„Það er brýnt að undirbúningur sé gerður fyrir neyðarástand vegna þess að nemendur eru mjög viðkvæmir og verða sérstaklega fyrir áhrifum í neyðartilvikum. Í samanburði við nágranna okkar á Norðurlöndum og í austri, þá er lítil seigla í Þýskalandi. Viðbúnaðarkerfi okkar gagnvart hættum er vanbúið.“

Breið pólitísk samstaða er fyrir almannavarnaþjálfun í skólunum. Irene Mihalic frá Græningjum lagði til að almannavarnaþjálfun eigi ekki aðeins að undirbúa nemendur fyrir stríð heldur einnig fyrir náttúruhamfarir eins og flóð og skógarelda. Hún sagði: „Það skerpir meðvitund um áhættu og stuðlar að lausnum til að koma í veg fyrir kreppur og draga úr áhrifum þeirra.“

Agnes Strack-Zimmermann, varnarsérfræðingur frjálslyndra demókrata segir undirbúninginn vera tímabæran. Hún fagnar aðgerðum sem auka vitund og veita hagnýt ráð í neyðartilvikum: „Þetta snýst ekki um að skapa ótta, heldur um að hjálpa ungu fólki að skilja raunveruleikann.“

Stríðsundirbúningur barna í Þýskalandi fyrir árásarstríð Rússlands eru í stíl við yfirlýsingar ESB. Nýlega lagði framkvæmdastjórn ESB fram drög að „Stefnumótun til undirbúnings fyrir stríðstengdar kreppur“ þar sem gerð var grein fyrir 30 ráðstöfunum til að styrkja varnir og viðbúnað almennings í Evrópu eins og til dæmis að koma upp birgðum heima svo hægt sé að lifa í þrjá sólarhringa, þegar stríðið kemur.

Sjá nánar hér.

Fara efst á síðu