Páll Vilhjálmsson bloggari og Hallur Hallsson ritstjóri Þjóðólfs sögðu frá reynslu sinni af þöggunartilraunum í tveimur stórum sakamálum sem fjölmiðlar þegja um: Byrlunarmálinu og Fósturvísamálinu. Reynt hefur verið að þagga niður í Páli Vilhjálmssyni með málaferlum sem enn standa yfir og tveir lögreglumenn voru sendir frá höfuðborginni til Akureyrar til að þagga niður í Halli Hallssyni með hótun um fangelsi og takmörkun ferðafrelsis. Þessi tvö óskyldu mál lýsa á hrópandi hátt, hvernig komið er fyrir íslensku málfrelsi.
Hvað veldur því að ýmis mál verða fréttir en önnur ekki ?
Páll Vilhjálmsson gerði samanburð hvað fjölmiðlum þætti fréttnæmt og benti á frétt um mann sem fyrirfór sér vegna alvarlegra ásakana kvenna um kynferðisáreitni, sem fengið hefur mikla athygli og umfjöllun fjölmiðla að undanförnu. Samtímis fjalla sömu fjölmiðlar lítið sem ekkert um byrlunarmálið og ekkert um fósturvísamálið. Byrlunarmálið er sérstakt að því leyti, að þar reyna starfsmenn stærsta ríkisfjölmiðils landsmanna, RÚV, að þagga niður umfjöllun um mál sem þeir vilja ekki að upplýsist. Samtals sex fjölmiðlamenn hjá RÚV, Stundinni og Kjarnanum voru með stöðu sakbornings hjá rannsóknarlögreglu vegna þjófnaðar á upplýsingum úr síma Páls Steingrímssonar skipstjóra sem byrlað var fyrir svo hægt væri að stela síma hans og afrita innihaldið. Reyndu fréttamenn RÚV að þagga niður í Páli Vilhjálmssyni og fór mál tveggja þeirra upp í Landsdóm sem sýknaði Pál af öllum kærum. Eitt mál er enn í kerfinu.
„Ritskoðun virðist vera orðinn sjálfsagður hluti af tilverunni hjá sumum sem er frekar óhugnanlegt.“
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og bloggari
Hallur Hallsson lýsti hvernig embætti lögreglustjóra beitti nýlegu ákvæði í hegningarlögum til að hóta sér fangelsi og ferðaþvingunum sem gæti verið vísir að því sem koma skal. Í fósturvísamálinu hafa ríkisstofnanir í bandalagi við ríka og volduga skjólstæðinga, misnotað valdaaðstöðu sína til að ekki bara til að reyna að þagga niður málið, heldur beinlínis ofsækja saklaust fólk sem leitar sannleikans að horfnum fósturvísum sem opinberir læknar geta ekki gert grein fyrir. Þannig eru hjónin Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason skráð í eftirlitskerfi yfirvalda á Íslandi yfir glæpamenn, þrátt fyrir að hjónin séu ekki á sakaskrá. Í áhrifastöðum ríkisvaldsins nánast á öllum póstum með afskiptum af málinu fer hópur femínista. Ritskoðunin er þvílík að bannað hefur verið að fletta upp opinberum bekkjarmyndum úr menntaskóla og háskóla til að reyna fela staðreyndir sem gætu tengst málinu.
„Ríkisvaldið fer í ofbeldisaðgerðir til þess að þagga. Þannig er komið fram hreint ótrúlegt bandalag sem er vísir að ritskoðun sem fer eins og krabbamein um allt samfélagið.“
Hallur Hallsson, ritstjóri Þjóðólfs
Breytingar fjölmiðlaumhverfis
Páll ræddi um breytingar á umhverfi fjölmiðla með nýrri tækni sem væri bæði til góðs en einnig hægt að misnota til ritskoðunar. Með tilkomu tölvutækninnar er tiltölulega auðvelt og ekki svo dýrt að stofna miðil eins og Þjóðólf, þar sem menn geta komið skoðunum sínum á framfæri. Þetta hefur leitt til mikillar fjölgunar efnis sem oft er af af misjöfnum gæðum sem gerir það erfiðara fyrir fólk að greina hismið frá kjarnanum. Tilkoma gervigreindar sem hægt er að láta skrifa texta án höfundar einfaldar ekki málin. Hvað er satt og hvað ekki? Samtímis er komin tækni til að hafa eftirlit með öllum rafrænum samskiptum og ritskoða. Töluvert hefur verið rætt um þau mál á undanförnum árum ekki síst með skírskotun til Bandaríkjanna og ritskoðun twitter og facebook. Páll Vilhjálmsson sagðist trúa því, að fólk myndi læra að þekkja þá einstaklinga sem segðu sannleikann og treysta á miðla þeirra, þótt allir væru þeim ekki alltaf sammála.
„Blaðamenn eru vitanlega að grafa sína eigin gröf með því að vera í liði með þeim sem vilja þagga niður í málum.“
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og bloggari
Frumkvæði að „traustum fréttum“
Hallur Hallsson lýsti „Trusted News Initiative“ sem BBC átti frumkvæði að og er bandalag fréttastofa og samtaka hvaðanæva úr heiminum. Samhæfa fréttaaðilar bandalagsins fréttamennsku, þannig að ein og sama fréttin er sögð á rauntíma á þeim öllum. BBC hefur greint frá þessu en ekki orð á RÚV. Byrjað var á einfréttamennskunni fyrir Covid og segir Hallur flesta fjölmiðla á Íslandi fylgja sama munstri, þ.e.a.s. segja sömu fréttina alls staðar. Hefur þetta fráhvarf frá sjálfstæðri blaðamennsku náð fótfestu á ótrúlega skömmum tíma. Ekki bætir úr skák að flestir fjölmiðlar eru komnir á ríkisspenann og í fósturvísamálinu hefur komið í ljós „ótrúlegt bandalag fjölmiðla við ríka og volduga skjólstæðinga að ritskoðun.“
„RÚV er ekki í því að flytja fréttir heldur fyrst og fremst í því að segja okkur, hvaða skoðun við eigum að hafa.“
Hallur Hallsson, ritstjóri Þjóðólfs
Ný frétt: Mesta sakfellandi niðurfelling sakamáls á Íslandi
Rétt áður en þessi frétt fór í loftið bárust fréttir frá lögreglunni að rannsóknir í byrlunarmálinu gagnvart sex fjölmiðlamönnum væri hætt og málið fellt niður. Páll Vilhjálmsson segir þetta „mesta sakfellandi niðurfelling sakamáls á Íslandi.“ Meira um það síðar.
Smelltu á spilarann til að hlusta á þáttinn: