Gripinn fyrir „þriðja morðtilræðið” gegn Trump

49 ára gamall Bandaríkjamaður Vem Miller var handtekinn á laugardag við vegatálma fyrir utan kosningafund Donalds Trumps í Coachella í Kaliforníu með vopn í óskráðum bíl. Lögreglustjórinn segir að handtakan hafi hugsanlega komið í veg fyrir þriðju morðtilraunina gegn forsetanum fyrrverandi – en alríkisyfirvöld hafa aðra mynd af því sem gerðist.

Chad Bianco, lögreglustjóri Riverside-sýslu, lýsti því yfir á sunnudag að lögreglan hefði „að öllum líkindum komið í veg fyrir enn eina morðtilraun á Donald Trump.“ Alríkisyfirvöld tóna niður handtökuna.

New York Post greinir frá því, að leyniþjónustan og FBI rannsaki ekki málið sem tilraun til árásar heldur telja líklegra, að maðurinn hafi haft vopnin til sjálfsvarnar. Bent er á að Miller er meðlimur hægri hreyfingar gegn ríkisstjórninni en Miller neitar því. Samkvæmt Press-Telegram er Miller meðlimur í Repúblikanaflokknum.

Miller reyndi að komast inn á fundinn með fölsuð fjölmiðlaskilríki og var stöðvaður þegar lögreglan uppgötvaði að bíll hans var óskráður. Við leit í bifreiðinni fann lögreglan bæði fölsuð vegabréf, ökuskírteini og haglabyssu, hlaðna skammbyssu og afkastamikið skotmagasín. Miller var látinn laus gegn 5.000 dollara tryggingu eftir að hafa verið kærður fyrir vopnalagabrot.

Fara efst á síðu