Fréttnæmasta frásögnin á 40 ára blaðamannsferli Björns Þorlákssonar við Rauða borðið hjá Samstöðinni

Hallur Hallsson, ritstjóri Þjóðólfs, mætti við Rauða Borðið hjá Samstöðinni ásamt þáttastjórnandanum Birni Þorlákssyni. Þeir þekkjast úr bransanum enda báðir reyndir blaðamenn, þótt Hallur hafi verið starfandi í lengri tíma og í ýmsum stórmálum sem Björn Þorláksson leit upp til sem ungur maður í blaðamannastarfinu. Björn minntist hins heimsfræga friðarfundar Regan Bandaríkjaforseta og Gorbatjov aðalritara kommúnistaflokks Sovétríkjanna í Reykjavík og voru þeir báðir sammála um mikilvægi þess sögulega fundar og þau góðu áhrif sem fundurinn áorkaði, þegar kommúnismanum var rutt úr vegi í Sovétríkjunum.

En það var fyrst og fremst Fósturvísamálið sem var til umræðu og ljóst að frásögn Halls hafði mikil áhrif á Björn sem tók fram, að þetta væri fréttnæmasta frásögn sem hann hefði heyrt á sínum 40 ára starfsferli.

Spillingargáttir opnuðust þegar Hlédís og Gunnar fóru að grennslast um hvarf fósturvísanna 19

Allt of fáir Íslendingar þekkja enn til málsins og hvílík afbrot hið opinbera hefur framið á tveimur landsmönnum sem vildu eignast barn, þeim Gunnari Árnasyni og Hlédísi Sveinsdóttur. Þau reyndu tæknifrjóvgun og fengu að vita að 10 fósturvísar voru skapaðir úr 10 eggjum. Þeim auðnaðist ekki að eignast barn og létu þar við sitja.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna, sem þau komust að því tekin höfðu verið 50 egg og fósturvísarnir voru ekki 10 heldur 29. Þegar þau hófu eftirgrennslan á horfnu fósturvísunum brast á flóðbylgja svika, lyga og hótana, ofsókna og ofbeldis gegn þeim bæði af hálfu opinberra aðila sem eiga að vernda lögvarin réttindi fullorðinna og barna og einnig prívat með umsátri um heimili þeirra til að hræða þau til að hætta leitinni að sannleikanum. Ef ofsóknirnar hefðu leitt til þess að hjónin skyldu, þá hefðu hinir ábyrgu læknar komist hjá því, að þurfa að gera grein fyrir stöðunni. En hjónabandið stenst og eflist bara með hverjum deginum, því þau styðja hvort annað í þessari baráttu Davíðs við Golíat.

Njósnað um þá sem eru valdhöfum óþægilegir

Hallur greindi frá því, að þetta væri stærsta mál sem hann hefði nokkurn tíman fengist við og það tæki á að uppljóstra um málið, það væri bæði viðamikið og þungt vegna efnisins. Hann rakti sögu málsins eins og sjá má hér á síðum Þjóðólfs bæði í greinarskrifum og viðtalsþáttum við þau Hlédísi og Gunnar sem núna eru orðnir fimm talsins. Frásögnin er svo skelfileg að fyrstu viðbrögð fólks sem þekkir ekki málavöxtu eru: „ Þetta getur bara ekki verið satt.“ Hallur lýsti ástandinu á Íslandi í dag:

„Það er njósnað um fólk í þessu landi. Það er haft eftirlit með fólki í þessu landi. Bara hér rétt hjá innan veggja Valhallar er eftirlitsherbergi fremst þar sem er fylgst með fólki. Innan veggja Valhallar. Og þaðan er gert út af örkinni og fólk sem talið er að einhverju leyti ógn, – það er njósnað um það. Við búum orðið í samfélagi, þar sem þeir sem fara ekki hinn breiða veg eru ofsóttir.“

Hallur lýsti ofsóknum í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum á hendur stjórnarandstæðingum og þar væru pólitískir fangar í fangelsum.

Samstöðin leyfir fólki að opna munninn og tala

Björn Þorláksson sagði:

„Hallur, ég þakka þér kærlega fyrir að koma. Í ljósi þess að sagan sem þú segir er hryllingssaga: Hún er mjög fréttnæm. Hér er enginn til þess að bregðast við því sem þú ert að segja sem stendur. Ég mun væntanlega kalla eftir því, að við fáum fleiri hliðar á þessum máli en þetta er einhver fréttnæmasta frásögn sem ég hef heyrt á mínum 40 ára blaðamannaferli. Þannig að ég get alveg staðhæft bara fyrir hönd reyndari hluta fjölmiðastéttarinnar, að þessi saga sem þú varst að segja, hún á sannarlega erindi inn í umræðuna, þótt hún sé viðkvæm og erfið. Það er það sem Samstöðin gerir, hún leyfir fólki að opna munninn og tala.“

Björn Þorláksson og Samstöðin eiga þakkir skyldar að taka málið til umfjöllunar og eins og Björn sagði, þá er umræðan tekin við rauða borðið og málfrelsi gildir.

Viðtal þeirra Björns Þorlákssonar og Halls Hallssonar, ritstjóra Þjóðólfs, við Rauða borðið hjá Samstöðinni má heyra og sjá hér á myndskeiðinu að neðan:

Fara efst á síðu