Er lögreglan ekki í stakk búin að takast á við gyðingahatur á Íslandi?

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður, ræðir um bann lögreglunnar við að áhorfendur fengju að sjá handknattleik Ísrael og Íslands sem fór fram nýlega. Greiningardeild lögreglunnar segir hættuástand ríkja vegna hugsanlegra hryðjuverkaárásar og hefur ekki breytt þeirri greiningu, þótt leikjum Ísraels og Íslands sé lokið. Getur verið að málin séu svo illa stödd, að lögreglan treysti sér ekki vegna mannskapsleysis til að tryggja öryggi áhorfenda vegna gyðingahaturs á Íslandi af því að það er Ísrael sem á í hlut?

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður, telur mat greiningardeildar lögreglunnar rangt sem telur, að:

„aukin ógn á Íslandi vegna hryðjuverka skýrist af því að á Íslandi séu einstaklingar/hópar sem aðhyllast ofbeldisfulla hægri öfgahyggju og jafnframt hafi þekktan ásetning eða getu til að framkvæma hryðjuverk“ 

Hvers vegna að útmála óskilgreind „hægri öfga-öfl“ sem stærstu hryðjuverkaógn Íslands?

Jón Magnússon skrifar grein þar sem hann gefur greiningardeild lögreglunnar falleinkunn fyrir að lista út hægri öfgahyggju sem aðalógn öryggismála á Íslandi. Hann skrifar:

„Af ofangreindu má því ætla að það sé og hafi verið mat greiningardeildar RLS að þessir hægri öfgamenn væru þeir sem þyrfti að óttast væri áhorfendum leyft að horfa á leikinn. Nokkur mótmæli voru fyrir utan leikstaðinn, en þar var aðallega fólk veifandi fána Hamas, innflytjendur frá Gasa og fólk sem þekkt er fyrir að vera yst til vinstri í litrófi íslenskra stjórnmála.

Meintir öfgahægrimenn létu sig greinilega algjörlega vanta. 

Nú verður sá sem þetta ritar að viðurkenna það, að hann þekkir ekki til samtaka öfga hægrimanna hvað þá til þeirra af þeirri tegund sem hafa vilja eða getu til að framkvæma hryðjuverk. Hins vegar eru hægri menn vel þekktir og einkenni þeirra er að vilja lifa í sátt og samlyndi við annað fólk og gæta þess að þjóðleg gildi og menning sé virt. Ef til vill er það sú hætta sem greiningardeild RLS er að vísa til.

Þegar búið er að segja A þá þarf líka að segja B. Hvaða samtök öfgahægri manna eru það sem RLS á við?  Hvar og hvernig birtist áróður frá slíkum aðilum. Hvaða viðbúnað hafa þau haft og hvaða hryðjuverk hafa þau framið eða verið með undirbúning að.“

Jón Magnússon bendir á þá staðreynd að frá aldamótum hafa yfir 90% mannskæðra hryðjuverka í Evrópu verið framin af öfgaíslamistum og spyr:

„Er þá ekki líklegt að hættan hér á landi sem og annars staðar í Evrópu stafi frá slíkum hópum. Af hverju er ekki vikið að því í skýrslu RLS?“

„Allt þetta hjal RLS bendir til þess, að þeir sem vinna þá greiningu sem um ræðir séu ekki vandanum vaxnir heldur hrapi að niðurstöðum á grundvelli fordóma en sleppi raunveruleikanum.


Athugasemd Gústafs Níelssonar sagnfræðings:

Fleiri taka undir í sama streng. Þannig skrifar Gústaf Níelsson sagnfræðingur í athugasemd við frétt Morgunblaðsins á Facebooksíðu Morgunblaðsins:

„Sá grunur læðist að mér að eitthvað sé brogað við lærdóm og lestur þeirra, sem komast að þeirri niðurstöðu að hryðjuverkaógn á Íslandi stafi helst frá þeim sem hallast að ofbeldisfullri öfga hægrihyggju.“


Sænski hryðjuverkasérfræðingurinn Magnus Ranstorp hefur manna best kynnt sér ástand salafismans og salafistískra hryðjuverkamanna Íslams. Í Svíþjóð búa íslamskir heilagastríðsmenn sem farið hafa til að berjast í heilagastríðum í Sýrlandi og Írak. Hryðjuverkaódæðið sem framið var í Stokkhólmi 7. apríl 2017 var framið af ólöglegum innflytjenda í Svíþjóð, Rakhmat Akilov, sem keyrði á gangandi vegfarendur og drap fimm og særði fimmtán. Hann hafði svarið eið til Íslamska ríkisins fyrir hryðjuverkið. Sænska lögreglan var gagnrýnd fyrir að hafa ekki haft upp á honum áður sem gæti hugsanlega hafa hindrað hryðjuverkið. En það er ekki bara við lögregluna að sakast. Yfirvöld sinna ekki landamæraskyldu og hafa opnað dyrnar fyrir íslamska hryðjuverkamenn í Svíþjóð.


Íslamskir heilagastríðsmenn eru raunveruleg ógn

Lögreglunni á Íslandi telur takmarkaða ógn stafa af herskáum íslamistum á Íslandi. Hún þekkir til íslamskrar hættu erlendis og segir í skýrslunni um herskáa íslamista á Íslandi (sjá pdf að neðan):

„Á Íslandi hafa öfgasinnaðir íslamistar hingað til ekki verið taldir skapa alvarlega ógn. Öfgasinnaðir íslamistar hafa aldrei framið hryðjuverk á Íslandi. Lögreglu er ekki kunnugt um að á Íslandi hafi myndast hópar eða samfélög sem aðhyllast herskáan íslamisma. Ekki er slíkt þó óhugsandi með öllu. Ólíkt því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum heldur lögreglan ekki uppi viðvarandi langtímaeftirliti með íslenskum ríkisborgurum sem grunaðir eru um að aðhyllast íslamisma. Í gögnum lögreglu er ekki að finna upplýsingar um að fram fari á Íslandi innræting ofbeldisfulls íslamisma (bls 22).“

Að öfgasinnaðir íslamistar hafa aldrei framið hryðjuverk á Íslandi sannar ekki að slíkt geti ekki gerst í framtíðinni með þau galopnu landamæri sem Ísland hefur sem meðlimur í Schengen. Alþjóða eiturlyfjahringir hafa þegar skotið rótum á landinu og lögreglan á fullt í fangi og treystir sér greinilega ekki lengur að tryggja öryggi áhorfenda á íþróttaleikjum ef Ísrael á í hlut.

Blóði drifin spor íslamskra vígamanna í Evrópu

Jón Magnússon ræðir um hryðjuverkaárásina á ritstjórn grínblaðsins Charlie Hebde og einnig um hneyksli fjölda hryðjuverkaárása íslamista í Bretlandi og hróp þúsunda breskra stúlkubarna sem voru hnepptar í kynlífsánauð af íslamistum meðan lögreglan horfði í hina áttina. Hann skrifar:

„Í dag ákvað ein stærsta lögregludeild Bretlands að setja lögreglumenn í sérstakt próf þar sem hvítir lögreglumenn þurfa að gangast undir sérstakar spurningar til að áunnin forréttindi þeirra trufli ekki störfin.  Ef slíkt væri gert við hörundsdökka mundi heldur betur heyrast hljóð úr horni.“

Lokaorð Jóns eru:

„Það er dapurlegt að íslenska lögreglan skuli vera komin í hóp afvegaleiddustu lögregludeila í álfunni og kunni ekki hverju sem það svo sætir, að átta sig á mismuninum á lambaspörðum og eplum hvað þá öðru sem meira máli skiptir. Eru þeir sem bera sig af jafn lélegum vinnubrögðum og röngum niðurstöðum og greiningardeild RLS gerir í þessu plaggi, líklegir til að geta staðið vel að öryggishagsmunum Íslendinga?“

Fara efst á síðu