Danska lögreglan greinir frá þeirri ógnvekjandi þróun, að sænskir ríkisborgarar eru ráðnir til að fremja glæpi í Danmörku. Fyrir greiðslur frá 200.000 sænskum krónum og hærra hafa unglingar frá Svíþjóð tekið þátt í fleiri alvarlegum glæpum í sumar og að sögn lögreglu orðið „hermenn í dönskum glæpastríðum.“
Torben Svarrer lögreglustjóri, hjá ríkisdeild lögreglunnar fyrir sérstaklega alvarlega glæpi, fullyrðir að unglingarnir séu lokkaðir með peningum til að framkvæma glæpi sem eru hættulegir einstaklingum, þar á meðal morðtilræða. Berlingske.dk greinir frá.
Nýlega voru tveir sænskir ríkisborgarar handteknir fyrir morðtilraun í Danmörku. Torben Svarrer segir:
„Þeim er einfaldlega borgað meira fyrir að framkvæma persónulega glæpi eins og morð. Það sem við höfum séð núna er morðtilraunir. En í Svíþjóð höfum við séð morð og það eru að hluta til sömu aðilarnir sem eru notaðar.”
Málin hafa gengið svo langt að danska ríkisstjórnin íhugar að setja upp sérstakt landamæraeftirlit gagnvart Svíþjóð. Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Dana segir „að hann útiloki ekkert til að stöðva innfluttu glæpamennskuna frá Svíþjóð.”
Danska og sænska lögreglan verður að vinna saman
Nýlega var sextán ára sænskur ríkisborgari handtekinn fyrir skotárás á Blågårds Plads í Kaupmannahöfn. Hann er sakaður um að hafa skotið með 9-millimetra Glock á óþekktan mann en missti marks. Maður í Kolding var hins vegar skotinn í fótinn í annarri skotárás. Grunaður ódæðismaður er einnig sænskur ríkisborgari.
Fyrr í sumar voru tveir unglingar með sænskt ríkisfang handteknir í tengslum við fyrirhugaða árás á klúbbhús Comanche mótorhjólaklúbbsins í Brøndby.
Svarrer nefnir að skipulagðir glæpamenn ráði einstaklinga í gegnum samfélagsmiðla til að fremja ofbeldisglæpi. Dönsk yfirvöld líta það mjög alvarlegum augum. Torben Svarrer segir í skriflegri yfirlýsingu til Ekstra Bladet:
„Við höfum séð að skipulagðir glæpamenn leita að fólki á samfélagsmiðlum sem er tilbúið að fremja hrottaglæpi gegn fólki. Því miður hafa ungir Svíar tekið að sér slík verkefni gegn greiðslu. Þetta er eitthvað sem við tökum augljóslega mjög alvarlega.”
Til þess að vinna gegn glæpum yfir landamærin efla lögreglumenn í Danmörku og Svíþjóð samstarf sín á milli. Danskur lögreglumaður hefur nýlega verið settur í Malmö og annar á aðgerðadeild lögreglunnar í Stokkhólmi, samkvæmt upplýsingum frá TT.