Billjóna evrulán Þýskalands verður dauðadómur evrunnar

Sambandsþingið í Þýskalandi hefur samþykkt að ríkið taki á sig ótrúlega eina billjón (eitt þúsund milljarða) evra í ný lán til hervæðingar Þýskalands, eftir að yfirvöld ákváðu þvert á gefin kosningaloforð að taka skuldabremsuna úr sambandi til að auka skuldir landsins. Leiðtogi Kristdemókrata, CDU, Friedrich Merz, er núna sakaður um kosningasvik – og Alice Weidel, stjórnarformaður Valkosts fyrir Þýskaland, AfD, kallar ákvörðunina „stærstu kosningasvikin í sögu Þýskalands.“

Sambandsþing Þýskalands hefur samþykkt sögulegan skuldapakka sem þýðir að lögum um hámarksskuldir landsins var aflétt til að geta tekið um billjón evra í nýjum lánum. Skuldapakkinn, sem Friedrich Merz, leiðtogi CDU, knúði í gegn ásamt sósíaldemókrötum, SPD og Græningjum, er sagður skipta sköpum fyrir varnir og innviði landsins. En gagnrýnendur segja að ákvörðunin geti haft hörmulegar afleiðingar fyrir bæði Þýskaland og evrusvæðið.

Stærstu kosningasvikin í sögu Þýskalands

Valkostur fyrir Þýskaland (AfD), stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur verið einn harðasti gagnrýnandi ákvörðunarinnar. Alice Weidel, leiðtogi flokksins, kallar þetta „dauðadóm yfir evrunni“ og varar við því að skuldabyrðin muni bitna hart á komandi kynslóðum. Weidel segir samkvæmt Remix News:

„Þetta er ekkert minna en stærstu kosningasvik sem ég hef séð í sögu Sambandslýðveldisins Þýskalands.“

Hún telur að risalánin til þýska ríkisins muni skapa miklar truflanir á lánamörkuðum og hækka vexti sem gæti leitt til þess að lántökukostnaður evruríkjanna stórhækki.

Ákvörðunin hefur einnig fengið harða gagnrýni á Merz innan hans eigin flokks, CDU. Margir kjósendur saka hann um að hafa brotið loforð sitt um að verja hina svo kölluðu skuldbremsu sem eru lög um skuldaþak þýska ríkisins. Það loforð var miðlægur þáttur í kosningabaráttu flokksins.

Breyttu stjórnarskránni til að geta lagt niður skuldbremsuna

Fyrir kosningar lofaði Merz því hátíðlega að CDU myndi halda sig við þýsku „skuldbremsuna“ og alls ekki auka skuldir landsins. En eftir kosningar braut hann loforðið samstundis og knúði í gegn stjórnarskrárbreytingu til að hægt væri að framkvæma hinar miklu lánveitingar. Þetta hefur orðið til þess að margir meðlimir CDU hafa gengið úr flokknum í mótmælaskyni.

Nýi skuldapakkinn var samþykktur með miklum mun, 513 meðlimir greiddu atkvæði með og 206 á móti. Aðeins þrír þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði á móti. Við breytingu á stjórnarskrá landsins þarf 2/3 hluta atkvæða sem var uppfyllt.

Alexander Gauland, þingmaður Valkosts fyrir Þýskalands, gagnrýndi Merz harðlega og sakaði hann um að svíkja íhaldssama arfleifð kristdemókrata og svíkja kjósendur sína með bandalagi við vinstri menn og græningja. Gauland sagði:

„Þú hefur fórnað öllu sem eftir var af íhaldssemi og millistéttapólitík í CDU bara til að verða kanslari. Haltu því áfram, og þú munt bera ábyrgð á hnignun Þýskalands í framtíðinni.“

Stjórnarflokkarnir verja ákvörðunina. Lars Klingbeil, leiðtogi sósíaldemókrata, sagði þetta „sögulega málamiðlun“ sem myndi styrkja Þýskaland og hernaðarmátt landsins. Merz hélt því sjálfur fram að þetta væri nauðsynleg ráðstöfun til að tryggja framtíð Þýskalands og Evrópu.

Fara efst á síðu