Allt er ekki alltaf karlmönnum að kenna

Hefðbundnir fjölmiðlar hata karlmenn. Á innan við viku birti New York Times tvær hatursgreinar um karlmenn: „Vandamálið við að vilja karlmenn “ og „Hvers vegna konur eru búnar að fá nóg af „mannfjárhaldi“ (sbr. búfjárhald)

Vandamálið við að vilja karlmenn

Að það skuli vera vandamál að vilja karlmenn er sennilega fréttaflass fyrir margar konur af minni kynslóð, en ef marka má New York Times er um að ræða alvörumál, sem kallar á 5,000 orða ritgerð og sérfræðinga í froðufræðum.

Umrædd grein byggir aðallega á orðskrípum sem þýða ekki neitt eða þýða það sem höfundurinn eða lesandinn vill eða telur þau þýða. Eins og Humpty-Dumpty sagði við Alice í bókinni Í gegnum spegilinn eftir Lewis Carroll: „Þegar ég nota orð, þá þýðir það akkúrat það sem ég segi að það merki – hvorki meira né minna.“ (Í orðasalatinu var þó þessi gullmoli: „A hard man is good to find.“)

Höfundur greinarinnar segir konur vera „búnar að fá svo nóg af því að ‘deita’ menn og þessar umkvartanir eru svo algengar,“ að akademískir froðufræðingar hafa smíðað orð yfir fyrirbærið: „heteró“-svartsýni, enda aldrei nóg af sýndaryrðum og refhvörfum í tungumálinu.

‘Heteró’-svartsýni er oflátungsyrði yfir viðhorf kvenna til karlmanna. Nema, nei, „hetero“-svartsýni er ekki orð, hvorki í ensku né íslensku.

Höfundurinn, sem var í opnu hjónabandi, en er ekki lengur með manninum sínum (hver hefði getað ímyndað sér það?), skrifar um hópkynlíf og lýsir alls kyns kynlífsþrekvirkjum á „deit“markaðinum, en er gröm yfir því að karlmenn hringja ekki aftur í hana. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að orsök alls þessa sé „slæm ‘deiting’ hegðun“ karlmanna og segist ekki vilja „falla í þá hefðbundnu gryfju að bíða eftir að karlmenn hringi í mig.

Full ástæða er til að benda henni á að þetta er „hetero“-raunsæi, en hvorki „hetero“-svartsýni né „hetero“-bölsýni (að vera þjakaður af bölsýni gagnvart raunveruleikanum veitir heillandi innsýn inn í heimsmynd vinstrimanna). Karlmenn, hvort sem þeir hafa aðgang að síma eða ekki, munu ekki hringja í hana, jafnvel þó henni finnist þeir ættu að gera það.

Það er skýring á því hvers vegna „deiting“ hegðun karlmanna gæti verið slæm og hvers vegna margar konur álíta þessa hegðun þeirra vera verri nú en áður.

Síðastliðinn áratug hafa karlmenn mátt þola stöðugar árásir, ekki aðeins samfélagsins, en einnig stjórnvalda, sem hafa gert atlögur að karlmönnum að stefnumáli. Hér í Bandaríkjunum ákvað ríkisstjórn Obama bókstaflega að leggja niður réttláta málsmeðferð (due process) gagnvart karlmönnum hvað varðaði rannsóknir á kynferðisafbrotamálum í bandarískum háskólum, sem gerði að verkum að ungir háskólamenn sakaðir um kynferðisbrot voru gerðir réttlausir.

MeToo hreyfingin stóð um árabil fyrir linnulausri herferð karlahaturs. Akademískar hrákasmíðar um eitraða karlmennsku og MeToo fórnarlambasögur, sannar og upplognar, tröllriðu fjölmiðlum.

Allt þetta hafði gífurleg áhrif á „deiting kúltúr“ ungs fólks, hvort sem það var í háskólum eða ekki og rétt er hægt að ímynda sér hve mannskemmandi áhrif þessi orgía karlahaturs hafði á unga menn.

Á sama tíma var fólkið sem predikaði um eitraða karlmennsku að telja okkur trú um að enginn munur væri á körlum og konum. Í raun væru karlkyns og kvenkyns ekki til; líffræði væri uppspuni. Saman við þennan eitraða kokkteil var svo bætt fleiri froðufræðikenningum eins og „líkamsjákvæðni“ („offita er falleg“) og fórnarlambadýrkun. Það var ómögulegt fyrir karlmenn að gera sér grein fyrir hvernig þeir áttu að haga sér.

Frjálslyndi fjölmiðlaflórinn taldi konum svo trú um að einnar-nætur-sambönd væru í raun göfgandi og mannbætandi, svo konur fleygðu sér að fótum karlmanna í leit að „fuck-buddies,“ en urðu reiðar þegar karlmenn svöruðu ekki símtölum þeirra.

„Hvers vegna konur eru búnar að fá nóg af ‘mannfjárhaldi’“

Konur eru búnar að fá nóg af því að þurfa að styðja tilfinningalega við mennina í lífi þeirra, er niðurstaða froðufræðings við Stanford háskóla. „Menn opna sig sjaldan fyrir öðrum en kærustum sínum eða eiginkonum, sem eru orðnar óformlegir sálfræðingar þeirra,“ segir hann og „sinna allri tilfinningalegri vinnu.

Þessi „vinna“––þökk sé Guði og lof––hefur nú fengið nafn: „mannfjárhald“ og lýsir „vinnu” kvenna til að mæta félags- og tilfinningalegum þörfum karlanna í lífi þeirra. Í könnun frá 2021 sögðust 15% karla ekki eiga neina nána vini, samanborið við 3% árið 1990; um helmingur ungra karlmanna sögðust þá leita til vina þegar þeir stóðu frammi fyrir persónulegum vandamálum; tveimur áratugum síðar sögðu aðeins 20% hið sama.

Froðufræðingurinn lítur á „mannfjárhald“ sem viðbót við hugtakið „fjölskyldufjárhald“ – vinnan við að halda fjölskyldum saman fellur óhóflega á herðar kvenna, sem í meirihluta sambanda stjórna félagslegum áætlunum. Hún minnist ekki á að þeim stofnunum og rýmum–– borgaraleg samtök, kirkjur, jafnvel vinnustaðir––þar sem karlar mynduðu vináttu hefur fækkað til muna – og konur hafa háð baráttu fyrir dómstólum til að fá aðgang að sumum þeirra.

Við getum rétt ímyndað okkur írafárið ef karlmenn skrifuðu  greinar um „kvenfjárhald“ og hvað það er mikill bömmer og byrði að þurfa að styðja konur þegar þær fara í tíðahvörf, missa áhugann á kynlífi eða drekka of mikið. Eða ef þeir kvörtuðu yfir hvernig konur leggja minna af mörkum fjárhagslega til sambanda, sem leggur þyngri fjárhagsbyrðar á karlmenn, gefi því niðrandi stuttnefni, t.d. „kvennafjármögnun“ og kvarti yfir hve sjálfselskt það sé af konum að velja ekki tekjuhærri starfsferla.

Það er fullkomið misræmi á milli þess sem konur segjast vilja og þess sem þær í raun vilja. Konur segjast vilja maka sem eru tekjuhærri en þær, en konur eru yfirgnæfandi meirihluti háskólanema og háskólamenntaðra. Líkurnar á að finna tekjuháa draumaprinsa fara dvínandi.


Allt er alltaf karlmönnum að kenna. Ef þeir eru ekki nógu opnir og hlýir, er það vandamál. Ef þeir opna sig og þarfnast tilfinningalegs stuðnings, er það vandamál. En sem betur fer geta karlmenn geta ennþá séð um að bíllinn sé gangfær, mokað hann út úr snjóskafli, slegið blettinn, málað húsið, drepið mýs og skordýr og tryggt að húsnæðislánið og reikningarnir séu greiddir. Konur verða að styðja karlmenn tilfinningalega og skipuleggja fjölskylduplön? Hjarta mitt, vertu stillt!

Konur verða að gera sér grein fyrir því hvað þær í raun vilja. Við getum ekki haldið því fram að „kvikkí“ sambönd séu jákvæð og valdeflandi og svo farið í fýlu þegar karlmenn hringja ekki. Eða nöldrað yfir því hvað karlmenn eru lokaðir, en svo klögum við þegar þeir þurfa á okkur að halda. 

Við verðum að hætta að láta eins og allt sé alltaf karlmönnum að kenna. Enn og aftur.

Íris Erlingsdóttir

Höfundur er fjölmiðlafræðingur, skrásetjari martraða íslenska Mæðraveldisins og löggiltur verndari íslenskra karlmanna.

Fara efst á síðu