Nýr þáttur Ísafoldar með viðtali við hinn landskunna blaðamann og bloggara Pál Vilhjálmsson var tekinn upp í gær. Páll lýsti dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (sjá pdf að neðan) sem sýknaði hann af öllum kæruatriðum Samtakanna 78. Vildu Samtökin 78 sjá Pál sektaðan og jafnvel fangelsaðan í tvö ár fyrir það eitt að hafa skoðun á því námsefni sem samtökin hafa í samvinnu við skólayfirvöld dreift til smábarna í leikskólum og grunnskólum landsins. Þjóðólfur þekkir til foreldra sem hafa sömu afstöðu og Páll en geta lítið sem ekkert gert af ótta við hefndaraðgerðir samtakanna og atvinnumissi. Páll segir að hann sé heppinn að vera kominn á aldur, þar sem hann hefði að öllum líkindum misst starfið eftir að hafa fengið á sig þessa kæru sem lögreglan var látin hlaupa fýluferð með af hálfu Samtakanna 78.
Páll lýsti kærunni en hann átti samkvæmt Samtökunum 78 að hafa brotið 233 gr. a. í hegningarlögum en þar er sagt að
„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna [þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna], 1) litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, [fötlunar, kyneinkenna], 1) kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Óheppilegt að Samtökin 78 kenni börnum kynjafræði
Páll Vilhjálmsson sagði:
„Niðurstaða dómarans var að það hefði ekki verið tilefni til að sakfella mig á grundvelli þessarar ákæru sem byrjaði með því að Samtökin 78 kæra mig. Þau fóru höllum fæti haustið 23 … þá var þessi umræða í samfélaginu, hvers vegna Samtökin 78 eru ein samtaka í því hlutverki að kenna börnum, ég held að þetta sé kallað kynjafræði. Þetta er ekki í hefðbundnum skilningi kynjafræði heldur er verið að kenna þennan boðskap sem Samtökin 78 bera fyrir brjósti, til dæmis að hægt sé að fæðast í röngum líkama og svo eru þarna nokkrir hlutir sem ég held að þegar þorri fólks kynnir sér það, megi bara kalla argasta klám. Þessu er haldið að börnunum, þau eru ekki spurð fyrir fram, foreldrarnir eru ekki spurðir og einmitt í þessari bloggfærslu, þá sagði ég að það er ekki vinnandi vegur að gera þetta svona. Það þarf að fara fram einhver umræða um þetta. Núna þegar þetta liggur fyrir, þá þurfum við að spyrja okkur: Er heppilegt að Samtökin 78 séu í þessu hlutverki? Mitt svar er nei.“
Mannréttindi í upphafi …. en síðan kom BDSM og trans
Íris Erlingsdóttir telur ofaukið hversu mikil áhrif og völd Samtökin 78 hafa í samfélaginu og Páll benti á að Samtökin 78 voru upphaflega stofnuð fyrir samkynhneigða og á þeim tíma var talað um fólk sem væri í skápnum, því það þurfti að fara í felur með kynhneigð sína. Samtökin voru því upphaflega samtök fyrir mannréttindi og þau hefðu fengið það viðurkennt sem mannréttindi að fólk ræður ekki að því að hvoru kyni það laðast. Páll segir:
„En síðan gerist það að samtökin fara að taka upp hluti eins og BDSM sem er ákveðin gerð af kynlífi, þar sem drottnun og undirgefni kemur við sögu og um 2010 er tekin upp transhugsun um að það sé hægt að fæðast í röngu kyni og ef að maður verður fyrir því óláni að þá sé sjálfsögð krafa að samfélagið hjálpi manni að fara í hitt kynið.“
Páll segir að meðvitund og líkami komi saman við fæðingu og þess vegna sé ekki hægt að aðskilja hug frá líkama og fullyrða að viðkomandi sé í „röngum líkama.“ Hægt sé að hafa löngun til að vera af öðru kyni en það sé annað mál.
Raunveruleikinn kominn fram úr lagaákvæðum um takmörkun tjáningarfrelsis
Íris Erlingsdóttir segir að hún þekki marga samkynhneigða bæði karla og konur og þau upplifi sig ekki á þann hátt sem lýst er í skýringu Héraðsdóms:
„Þessar takmarkanir sem gerðar eru með lögum, helgast meðal annars af tilliti til réttinda eða mannorðs þeirra sem samkynhneigðir eru og einstaklinga með kynáttunarvanda. Hafa dómstólar talið að frá almennu sjónarhorni séð megi telja þessa sérstöku lagavernd nauðsynlega með hliðsjón af misrétti sem alkunna sé að þessir hópar fólks og aðrir hópar sem nefndir eru í 233. gr.a almennra hegningarlaga, hafi löngum átt á hættu að verða beittir í skiptum sínum við aðra, sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar. Að þessu leyti þjóni takmarkanir, sem á þennan hátt séu gerðar á tjáningarfrelsi fólks og í þessum tilgangi, lögmætu markmiði.“
Íris finnst lýsing löggjafans ekki lengur vera í samræmi við raunveruleikann, þar sem þróunin hafi þegar leyst að miklu leyti þann vanda sem er til grundvallar skerðingarákvæði tjáningarfrelsisins. Enginn af þeim sem Íris þekkir upplifir sig í þeirri stöðu sem lýst er og skerðingarákvæðið því óþarfi. Hún segir atlögu Samtakanna 78 gegn Páli vera refsingu samtakanna gegn einstaklingi sem ekki er á sömu skoðun og þau sjálf. Réttarferlið sem tekið hefur tvö ár hafi verið gert til að brjóta niður viðnám Páls Vilhjálmssonar og skerða efnahagslega möguleika hans og tíma sem hann hefði að öðrum kosti getað notað fyrir annað. Hún bendir einnig á þessi réttarhöld séu ekki skattgreiðendum að kostnaðarlausu sem þurfa að borga miljónir í lögfræðikostnað.
Dæmi um að framámenn hinsegin samtaka hafa verið dæmdir fyrir barnaníð
Gústaf Skúlason nefndi dæmi um barnaníðsdóma í þremur löndum, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem afbrotamenn voru barnaníðingar sem höfðu trúnaðarstöðu í samtökum hinsegin fólks. Í Svíþjóð var forystumaður hinsegin lækna dæmdur fyrir að nauðga sjúklingum, í Bretlandi var stofnandi Pride á einum stað fundinn sekur um að hafa nauðgað 12 ára dreng og í Bandaríkjunum hlaut samkynja par, framámenn í hinsegin baráttunni, dóm fyrir að nauðga tveimur drengjum 9 og 10 ára gömlum og bjóða þá til annarra barnaníðinga. Þeir síðastnefndu fengu hvor um sig yfir 100 ára fangelsisdóm. Páll sagði dæmi um slíkt finnast á Íslandi og dæmin sanna að fólk með barnagirnd laðast að börnum gegnum slík samtök þótt það sé engan vegin ætlun samtakanna að slíkt eigi að geta gerst og þau berjist alfarið gegn slíku brotlegu athæfi.
Vonandi vekur dómurinn stjórnmálamenn og að fleiri þori að segja skoðun sína
Páll vonast til þess að að stjórnmálamenn og lögreglan sjái að sér í framtíðinni að vera ekki að styðja opinberlega við samtök sem fara fram með slíkum hætti gegn skoðunum venjulegra Íslendinga. Hann telur að meirihluti Íslendinga sé honum sammála og vonast til þess að dómurinn leiði til þess að fleiri þori að tjá sig í stað þess að hætta að tala vegna ofríkis samtaka sem fengið hafa allt of mikil völd og eru að reyna að ná sér niður á þeim sem ekki eru þeim sammála.
Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlusta á þáttinn: