Klerkaveldið í Írak vill lækka giftingaraldur stúlkna úr 18 ára aldri niður í 9 ára aldur. Lagafrumvarp þess efnis er til meðferðar á þinginu og lagt fram af shíamúslímskum meirihluta þingmanna. Tillagan mætir mikilli andspyrnu bæði innan landsins sem utan.
Verði tillagan að lögum, þá verður gömlum körlum heimilt að giftast börnum allt niður í níu ára aldur og barnaníð lögleitt. Lagatillagan er mikið áfall fyrir konur og réttindi þeirra og komið af stað umfangsmikilli herferð kvenna í Írak ásamt stuðningi einstakra þingmanna. Auk stórlækkaðs sjálfræðisaldurs þá á einnig að svipta konum möguleikum til að skilja og fara með forsjá barna sinna og erfðamál.
Hörmung fyrir konur
Lögin voru tekin til annarrar umræðu á þingi Íraks þann 16. september s.l. Ríkisstjórnin heldur því fram að lögin aðlagi stjórn landsins að bókstafstrúartúlkun á íslömskum lögum. Einnig er því haldið fram að lögin „muni vernda ungar stúlkur frá siðlausum samböndum.“
Andstæðingar komu í veg fyrir svipaðar tillögur árin 2014 og 2017. Raya Faiq, umsjónarmaður bandalags hópa sem mótmæla hugsanlegum lagabreytingum, lýsir tillögunum sem „hörmungum fyrir konur.“ Hún reynir ásamt hópi kvenkyns þingmanna að koma í veg fyrir að lögin verði samþykkt. Þingkonan Alia Nassif segir:
„Því miður telja margir karlkyns þingmenn það ekki vera neitt vandamál að fullorðnir giftist ólögráða börnum.“