70% félagsbóta í Noregi fer til innflytjenda

Tonje Brenna atvinnu- og innflytjendaráðherra Noregs (skjáskot Netavisen).

Hlutfall félagslegrar fjárhagsaðstoðar sem fer til innflytjenda í Noregi hefur aukist mikið – og 69% allra greiðslna fara núna til fólks sem fætt er erlendis samkvæmt nýjustu tölum norsku hagstofunnar SSB.

Alls fóru 6,7 af 9,7 milljörðum norskra króna sem úthlutað var í félagslegar bætur árið 2023 til innflytjenda. Mikil aukning veldur áhyggjum stjórnmálamanna, sérstaklega innan Høyre-flokksins, segir í frétt Nettavisen. Á tíu árum hafa greiðslur til innflytjenda aukist með yfir 70%.

Mari Holm Lønseth, talsmaður innflytjendastefnu Høyre, telur að innflytjendur fái ekki vinnu nógu fljótt. Hún leggur til strangari kröfur, meðal annars um skylduvinnu fyrir velferðarþega undir 40 ára aldri og hertar reglur um fjölskyldusameiningar.

Tonje Brenna atvinnu- og innflytjendaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi þegar hrint í framkvæmd nokkrum af tillögum Høyre. Hún bendir á að kynningaráætlun fyrir flóttamenn sé orðin atvinnumiðuð og að gripið sé til fleiri aðgerða til að styðja við vinnulínuna í aðlögunarstefnunni.

Hluti hækkunar greiðslu félagsbóta skýrist af fjölda úkraínskra flóttamanna sem hafa komið til Noregs frá 2021.

Ómögulegt að sameina hömlulausan innflutning og velferð

Árið 2013 sagði sænski þjóðhagfræðingurinn Assar Lindbeck í fyrirlestri:

„Ríkt land eins og Svíþjóð með níu milljónir íbúa í heimi með marga milljarða fátækra getur ómögulega haft frjálsan innflutning. Þeir verða að hafa takmarkaðan innflutning. Og það þarf að vera mjög takmarkandi ef verja á laun og velferðarkerfi í ríkum löndum.“

Gunnar Myrdal sagði velferðarríkið vera þjóðlegt verkefni. Ekki væri hægt að bjóða öllum heiminum það sem safnað hefði verið í 100 ár án þess að velferðarkerfið færi um koll.

Fara efst á síðu