Ríkisstjórn Úkraínu samþykkir 30 daga vopnahlé við Rússa. Það segir í yfirlýsingu á opinberri vefsíðu Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu sem birt var í dag. Zelensky er í Sádi-Arabíu í vikunni ásamt utanríkisráðherra Úkraínu, Andriy Sybiha og Rustem Umerov varnarmálaráðherra til funda með sendinefnd Bandaríkjanna sem Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna leiðir.
Með í sendinefnd Bandaríkjanna auk utanríkisráðherrans eru einnig Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi og Steve Witkoff, sendiboði í Mið-Austurlöndum. Eftir fundinn í dag, þriðjudag segist Úkraína vera reiðubúin að samþykkja vopnahlé.
30 daga vopnahlé
Í yfirlýsingu á vefsíðu Úkraínuforseta segir:
„Úkraína lýsir sig reiðubúna til að samþykkja tillögu Bandaríkjanna um tafarlaust 30 daga vopnahlé, sem hægt er að framlengja með gagnkvæmu samkomulagi milli aðila og sem er samtímis samþykkt og framfylgt af Rússlandi.“
Samkomulagið felur einnig í sér að Úkraína samþykkir jarðefnasamning við Bandaríkin, að hernaðarstuðningur verði hafinn á ný og að Bandaríkin muni enn og aftur deila hernaðarupplýsingum með hinu stríðshrjáða landi.
Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna, með Donald Trump í fararbroddi, hefur beitt Úkraínu miklum þrýstingi til að leggja niður vopn og semja við Rússa. Meðal annars með því að stöðva bandarískar vopnasendingar. Ekki er ljóst, þegar þetta er skrifað, hvernig Rússar munu bregðast við tillögu Bandaríkjamanna um vopnahlé.