Það er til marks um vesældóm Justin Trudeau að ríkisstjórn Kanada hefur ekkert gert varðandi landamæravandamálin við Bandaríkin, þótt ríkisstjórn Trumps á fyrra forsetatímabili hans hafi farið þess á leit. Núna skríður Trudeau til verksins og lofar að styrkja landamæraeftirlit með tækni, þyrlum og landamæravörðum. Tíu þúsund manns eiga að sinna verkinu. Að auki mun Kanada stofna embætti „fentanýlstjóra,“ hryðjuverkastimpla glæpahópana og vinna í samstarfi við Bandaríkin gegn skipulögðum glæpahringjum, eiturlyfjasmygli og peningaþvotti.
Að Trump þurfi að hóta Kanada með 25% tollum til að sósíalistastjórn Trudeau sem kallar sig frjálslynda komist úr drykkjuboðum í vinnuna er til marks um það hversu djúpt ríkisstjórn Kanada er sokkin. En með svipuna yfir höfði sér ákvað Trudeau, sem enginn skilur að skuli enn vera í embætti forsætisráðherra Kanada, að semja við Trump. Núna fær Kanada 30 daga til að standa við samninginn, Trump hefur frestað gildistöku tollanna sem áttu að hefjast í dag.
Sömu sögu er að segja með Mexíkó. Stjórnin þar lofaði undir tollahótun Trumps að herða eftirlit með landamærunum með tíu þúsund manns og berjast með ríkisstjórn Bandaríkjanna gegn eiturlyfjahringjunum sem fengið hafa að hreiðra um sig nær óáreittir í lengri tíma. Hvers vegna ríkisstjórn Joe Biden vildi ekki fara í stríð við glæpahópana vekur vægast sagt grunsemdir um þann gjörspillta mann sem hegðar sér oftar en sjaldnar sem óvinur eigin landsmanna. Mexíkó fékk svipaðan frest og Kanada til að standa við samninginn.
Þá er Kína eftir. Trump hefur boðað 10% tolla á kínverskar vörur og er sagður ætla að ræða við Xi Jinping fljótlega. Vonandi tekst þeim í sameiningu að fara í stríð við glæpahringina en kínverskir útrásarvíkingar eru sagðir reka eiturlyfjaverksmiðjur bæði í Kanada og í Mexíkó.
Í viðtali við Þjóðólf 27. janúar sagði Karl Gunnarsson flugstjóri, búsettur í Ottawa, frá „aðgerðum kínverskrar lögreglu sem næmi brott kanadíska ríkisborgara af kínverskum ættum.“ Sagði Karl, að fólkið hyrfi og ekkert fréttist um afdrif þess síðan. Kanadíska þjóðarlögreglan snýr blinda auganu að þessu og Kínverjar fara sínu fram. Sagði Karl að í reynd væri Kanada upp til hópa stjórnað af Kína. Þjóðólfur mun bráðlega ræða aftur við Karl Gunnarsson til að fá enn frekari upplýsingar um málin.