Trudeu: „Við styðjum heilshugar árásir á Rússland með langdrægum eldflaugum”

Stríðsæsingurinn magnast í Vesturheimi um árásir á Rússland með langdrægum eldflaugum. Núna funda Keir Starmer og Joe Biden um Úkraínustríðið og spurninguna um árásir á Rússland með langdrægum eldflaugum sem þeir hafa sent til Úkraínu. Aukin spenna ríkir eftir að Rússland vísaði sex breskum diplómötum úr landi með ásökunum að hafa stundað njósnir í Rússlandi. Núna leggur forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeu, sitt lóð á vogarskál stigmögnunar og lýsir því opinberlega yfir, að Kanada styðji að fullu árásir Úkraínu á Rússland með langdrægum eldflaugum (sjá X að neðan).

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði við blaðamenn á blaðamannafundi í Sainte-Anne- de-Bellevue, Que í gær, að Úkraína eigi að fá heimild til að skjóta langdrægum flaugum Bretlands og Bandaríkjanna á skotmörk í Rússlandi. Þegar Trudeau var spurður um aðvörun Pútíns um stigmögnun stríðsins svaraði Trudeau:

„Kanada styður heilshugar að Úkraína noti langdræg vopn til að koma í veg fyrir og hindra áframhaldandi getu Rússa til að eyðileggja úkraínska borgara og innviði, aðallega til að drepa saklausa borgara í óréttlátu stríði sínu. (Pútín) kaus að hefja þessi átök og hann getur kosið að enda þau á morgun.“

Biden sagði föstudagskvöld, að hann heimilaði ekki Úkraínu að nota langdrægar eldflaugar til að gera árásir á Rússland. Hversu lengi það heldur á eftir að koma í ljós. Keir Starmer sagði við blaðamenn áður en hann hóf för sína til Washington:

„Rússar hófu þessi átök. Rússar réðust ólöglega inn í Úkraínu. Rússar geta bundið enda á þessa deilu strax. Úkraína hefur rétt til sjálfsvarnar.”

Þýskaland neitar að senda Úkraínu langdrægar eldflaugar

Olaf Scholz sagði í gær, að Þýskaland muni ekki senda langdrægar eldflaugar til Úkraínu. Þjóðverjar óttast að notkun á eldflaugum þeirra sem yrði skotið á skotmörk í Rússlandi myndi auka hættuna á að Þýskaland drægist með í stríðið og það yrði stríð á milli Þýskalands og Rússlands. Scholz sagði:

„Þýskaland hefur tekið skýra ákvörðun um hvað við munum og munum ekki gera. Sú ákvörðun mun ekki breytast.”

Fara efst á síðu