Trúarfélag kærir biskup fyrir að „afskræma og afvegaleiða kristni“

Fréttin.is birtir frétt um kæru trúarfélagsins „Gömlu Göturnar trúfélag“ sem send hefur verið til Úrskurðarnefndar þjóðkirkjumála vegna tilburða yfirstjórnar þjóðkirkjunnar til að afskræma og afvegaleiða kristni í berhöggi við óhagganlega ritningu Biblíunnar. Kæran virðist meðal annars eiga rót sína í fréttaumfjöllun af nýjum handbókardrögum biskups sem og breytinga í nýrri sálmabók o.fl. sem skotið hefur upp kollinum hjá forystu þjóðkirkjunnar síðustu árin. Segir í kærunni að efni hennar varði stjórnsýslu og starfshætti biskups o.fl. á vettvangi þjóðkirkjunnar og ætluð alvarleg brot ábyrgðarmanna íslensku þjóðkirkjunnar gegn m.a. stjórnarskrá og lögum.

Fréttin.is greinir frá:

Fréttin hefur borist afrit stjórnsýslukærunnar. Þar segir í kaflanum „Um aðdragnda málsatvika“:

„…umkvörtun og þannig kæruefni í erindi þessu annars vegar um tiltekinn boðskap biskups sem birtist í fyrrgreindum handbókardrögum og nýrri almennri kirkjubæn er send var til presta og þar með í sóknir og söfnuði landsins fyrir tiltölulega stuttu síðan; hins vegar nánar greindar sálmaútfærslur sem birtar voru og þannig beitt af sóknarprestum í Digraneskirkju við Guðsþjónustustund þar í maí sl. Þá lýtur umkvörtunarefnið og tilheyrandi kröfugerð hér einnig að undirritun biskups fyrir svonefnd heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem umbj.m. telja enga kirkjuréttarlega viðhlítandi stoð liggja til grundvallar svo og tiltekna tortímingartilburði viðvíkjandi hinni heilögu þrenningu, sbr. enn nánar hér strax á eftir.“

Síðar í undirkafla um handbókina:
„…er nú skyndilega og óvænt gert ráð fyrir því að fleiri kyn en karl og kona eigi sér jarðneska tilvist og teljist trúarleg staðreynd

Þá eru fyrir hendi skírskotanir og tilvísanir í handbókinni til annarra og andstæðra trúarbragða sem ekki verður séð að geti talist samræmanlegar þeim grundvallargildum sem boðuð eru samkvæmt fyrrgreindum grundvallarlögum og réttarheimildum viðvíkjandi þjóðkirkjunni og þeim siðaboðum og kenningum sem henni telst þannig heimilt að miða við, sbr. m.a. 63. gr. stjórnarskrárinnar um að ekki megi kenna neitt sem telst andstætt allsherjarreglu eða góðu siðferði

Í undirkafla „“Viðvíkjandi nýlegum breytingar á almennum kirkjubænum og hefðhelguðu sálmakveri“ segir meðal annars:

„…eftirgreindar áherslur og breytingar á almennum kirkjubænum og sálmum í Nýju sálmabókinni heimildarlausar beinlínis andstæðar gildandi þjóðkirkjulöggjöf og þá um leið tilgreindum stjórnarskrárboðum 62. gr. stjórnarskrár. Um eftirfarandi uppfærslur og orðræðu er þannig að tefla í tilgreindum kirkjugögnum samkvæmt fyrirliggjandi heimildum:

  • Guð er kvengerður og uppnefndur ljósmóðir.
  • Allah, átrúnaðargoð islamista, er ákallaður og lofsunginn berum orðum í kirkjuhelgaðri íslenskri sálmabók, nánar greint samkvæmt sálmi nr. 312.
  • Guð er ávarpaður eða ákallaður sem „móðir margbreytninnar““

Þá er undirritun þjóðkirkjunnar við heimsmarkmið SÞ harðlega gagnrýnd í kærunni.
Einnig er með skírskotun í ummæli Geirs Waage lýst yfir alvarlegum áhyggjum að mögulegri aðför þjóðkirkjunnar heilagri þrenningu, einnar grunnstoða kristni; Þríeinn Guð, Faðir og Sonur og Heilagur Andi.

Á sex síðum eru reifaðar „Málsástæður og lagarök“. Þar segir í samantekt:

„Brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og þar með m.a. 62. gr. stjórnarskrárinnar með A) tilteknum handbókardrögum B) tilvitnuðum breytingum á almennri kirkjubæn C) lofsöng til hins muslimska [þ.e. íslamska] Allah í sálmabók sbr. 312 þar D) aðildarundirritun biskups fyrir svonefnd heimsmarkmið SÞ“.

Í niðurlagi kærunnar eru settar fram kröfur um að boðskapur í 4 liðum verði lýstur ólögmætur, þar sem hver af hinum 4 liðum er reifaður frekar:

  1. Handbók biskups til presta : Tilvitnun þar og áhersla á kynjafjölgun sóknarbarna og manna yfirleitt en kyn manna eru eins og alkunna er aðeins tvö, svo og samkvæmt fyrirliggjandi heimildum sú ráðagerð að reyna að tortíma hinni heilögu þrenningu sem liggur til grundvallar og er þannig í órofa samhengi við m.a. 62. gr. stjórnarskrárinnar.
  2. Nýja sálmabókin : Lofsöngur hins muslimska [íslamska] Allah í sálmi nr. 312 – útþurrkun hefðhelgaðra kristilegra sálma en dægurlagabirting gerð í staðinn.
  3. Almenn kirkjubæn : Kvengerving Guðs með fyrirliggjandi boðskapsbirtingu eða orðræðu þar á borð við „Guð ljósmóðir“ – „móðir margbreytninnar“ og „algóða móðir“.
  4. Undirritun biskups viðvíkjandi svonefndum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Þá er einnig viðtal við Þröst Jónsson forsvarsmanns trúarfélagsins sem kærir biskup. Trúarfélagið berst meðal annars fyrir því að kristinfræði verði aftur kennd í grunnskólum landsins. Fréttin.is vekur athygli á því að hlekkur á umrædda handbók og bréf biskups til presta og djákna 16. desember 2024 hafi verið fjarlægt af vefi þjóðkirkjunnar og starfsmaður biskupsstofu tjáði blaðamanni Fréttarinnar að birting handbókarinnar hafi verið mistök.

Fara efst á síðu