Þriðji hver Úkraínumaður vill gefa eftir landssvæði til að fá frið

Sífellt fleiri Úkraínumenn eru reiðubúnir til að gefa eftir land í skiptum fyrir frið við Rússland. Það sýna tvær nýlegar kannanir. Á sama tíma fækkar þeim Úkraínumönnum verulega sem vilja stríða í því skyni að losa allt landið undan rússneskum áhrifum.

Fyrsta könnunin var gerð í maí af úkraínsku félagsfræðistofnuninni „Kyiv International Institute of Sociology, KIIS, en niðurstöður hennar voru kynntar nýlega. Samkvæmt þeirri könnun telja 32% aðspurðra, að Úkraína geti gefið eftir land í skiptum fyrir frið „eins fljótt og auðið er.“

Á sama tíma fækkar þeim sem vilja „undir engum kringumstæðum” gefa eftir úkraínskt landsvæði jafnvel þótt það þýði áframhaldandi stríð og að sjálfstæði Úkraínu sé að veði. 84% sögðu það í maí í fyrra en í maí í ár var talan komin niður í 55%.

Í rannsóknum sínum skiptir stofnunin í Kænugarði Úkraínu í fjögur svæði; vestur-, mið-, austur- og suðurhluta Úkraínu. Svæðisskiptingin byggist að hluta til á efnahagslegri skiptingu landsins frá Sovéttímanum.

Mestur friðarvilji á stríðshrjáðu svæðunum

Flestir óska eftir friði í verstu stríðsátakasvæðum austur- og suðurhluta Úkraínu. Færri en helmingur íbúanna í suðurhluta Úkraínu eða 46% vilja halda stríðinu áfram þar til Rússar verða hraktir úr öllu landinu. Í vesturhluta Úkraínu vilja 60% halda stríðinu áfram.

Geta hugsað sér málamiðlun

Fylgjandi könnun sem gerð var í júní sýnir einnig, að meirihluti Úkraínumanna 57% geta sæst á málamiðlun, þar sem Rússar haldi Krímskaga og hernumdu svæðunum Donetsk og Luhansk ef þeir skila til baka Kherson og Zaporizhzhya. Þessi málamiðlun gerir hins vegar ráð fyrir, að Úkraína fái aðild að bæði Nató og ESB og fái „allt nauðsynlegt fjármagn til uppbyggingar frá Vesturlöndum.“

Tvær aðrar málamiðlunartillögur eru uppi, þar sem ekki er gert ráð fyrir að Úkraína geti gengið í Nató. Jafnframt að Rússland haldi öllu því landsvæði sem það ræður núna yfir. Flestir Úkraínumenn eru andvígir þessum tillögum – jafnvel þótt áframhaldandi fjármögnun komi frá Vesturlöndum.

Fara efst á síðu