Þjóðólfur er nýstofnaður miðill sem leit dagsins ljós í byrjun ágústs á þessu ári. Hallur Hallsson ritstjóri, þjóðkunnur fjölmiðlamaður og Gústaf Skúlason, fréttamaður í Stokkhólmi, Svíþjóð, slógu saman pokum sínum og stofnuðu miðilinn í kjölfar umróts á fjölmiðlamarkaðinum á Íslandi.
Það sem einkennir Þjóðólf og jafnframt skilur að frá mörgum öðrum miðlum, er að Þjóðólfur er óháður peningavaldi og flokksvaldi og er því frjáls og óháður í frásögn og umfjöllun staðreynda. Þjóðólfur stendur á þjóðlegum grunni og ver íslensk gildi, kristni, stjórnarskrána, lýðveldið, lýðræðið, málfrelsið og Ísland sem fullvalda þjóð. Frjáls og fullvalda.
Þjóðólfur hefur frá upphafi einn miðla rutt braut í stærsta hneykslismáli Íslands, hinu svo kallaða Fósturvísamáli. Þar hefur íslenska ríkið framið réttarfarslegt morð á hjónunum Hlédísi Sveinsdóttur og Gunnari Árnasyni sem grennslast eftir 19 horfnum fósturvísum. Læknar sem tóku 50 egg og gerðu 29 fósturvísa hafa ekki gert grein hvað varð um 19 þeirra.
Öllum kærum þeirra hjóna vegna læknanna, innbrota á annað hundrað manns í mörg þúsund innlitum í sjúkraskýrslu Hlédísar og falsaðrar sjúkrarskrár Landsspítalans, kæru vegna upploginna bréfa á hjónin sem lögfræðingur tæknifrjóvgunarfyrirtækisins lagði fram og lögreglan samþykkti án rannsókna eða dómsúrskurðar ásamt mörgum öðrum kærum, hefur öllum verið lokað niður í skúffu viðkomandi yfirvalda. Hjónin hafa verið skilin eftir mannréttindalaus og sætt ofsóknum með tilhæfulausum nálgunarbönnum og hótunum um sex ára fangelsi með lögsókn ríkisins gegn sér fyrir uppreisn gegn valdstjórninni!
Allt er þetta með þvílíkum eindæmum að fullyrða má að hér sé eitt af verstu opinberu hneykslismálum sem komið hafa upp í sögu lýðveldisins. Verður það viðkomandi til ævarandi skammar að hafa troðið mannréttindi hjónanna í svaðið, til dæmis Alma Möller fv. landlæknir, núverandi heilbrigðismálaráðherra. Óhætt má kalla klíkuskapinn í kringum Dag B. Eggertsson, hinn gjörspillta borgarstjóra sem rústaði efnahag Reykjavíkinga og sósíalistann Kára Stefánsson ásamt fleirum fyrir læknamafíu Íslands. Þar er klíkuskapur og persónulegur ávinningur æðri öllum stjórnarskrárbundnum mannréttindum og fögrum loforðum um persónuvernd sjúklinga.
Þjóðólfur mun fylgja þessu máli eftir og standa við hlið þeirra Hlédísar og Gunnars eins lengi og þörf krefur og kraftar leyfa. Þjóðin ætti að setja fram kröfu um að ríkið taki málið til dómsmeðferðar, þar sem farið verði yfir allt ferlið og gögn í málinu og að framkvæmd verði DNA-rannsókn til að fá úr því skorið hvort fósturvísar þeirra hjóna hafi orðið að börnum út í bæ. Þá fyrst verður hægt að sýna fram á hver sannleikurinn er á óhrekjandi hátt.
Að svo mæltu þakkar Þjóðólfur fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar öllum landsmönnum Gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!