6. þáttur Fósturvísamálsins var tekinn upp í dag og er verið að vinna efnið til birtingar í nótt eða í fyrramálið. Í þessum 6. viðtalsþætti fara þau Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason víða yfir og gera grein fyrir nýjum þáttum málsins, til dæmis nálgun Íslenskrar erfðagreiningar en margir læknar sem brutust inn í sjúkraskrár þeirra hjóna störfuðu með Kára Stefánssyni á einn eða annan hátt.
Hallur Hallsson og Gústaf Skúlason frá Þjóðólfi ræddu við hjónin enda hefur margt gerst, þar sem töluvert er liðið frá því viðtalsþáttur númer fimm fór í loftið. Er meðal annars rætt um að svo virðist sem lögreglan hafi ætlað að setja hjónin og Hall Hallsson í nálgunarbann án þess að formleg og fullkomin kæra hafi borist til lögreglunnar. Það gæti verið skýringin á því, að lögreglustjóri ákvað að láta málið niður falla. Það sem hefur einkennt allt málið er hversu erfitt er að fá gögn frá lögreglunni og þarf að þrýsta á um að fá þau afhent sem berast seint ef þau eru þá yfirleitt afhent.
Farið er yfir málið og rifjað upp hvílíkt óheyrilegt inngrip var framið í líf hjónanna að tekin voru 50 egg og gerðir 29 fósturvísar og tugir eggja og 19 fósturvísar horfnir án þess að hjónin hefðu verið spurð eða gefið leyfi fyrir slíkri töku. Hjónin komu til að reyna að eignast eitt barn og eru allir sammála því að aðgerð læknanna sé í engu samræmi við tilefnið.
Slík taka og fjöldaframleiðsla fósturvísa er einnig of mikið fyrirtæki til að hægt sé að vísa til þess sem „mistaka“ því enginn tekur 50 egg til að framleiða fósturvísi fyrir eitt barn, hvað þá framleiðir 29 fósturvísa fyrir eitt barn.
Þessi mikli glæpur brýtur gegn öllum lögum um tæknifrjóvgun og er djúpt siðrof við sjálft lífið. Hjón sem treysta læknum fyrir eigin lífi og dýpstu tilfinningum eiga að sjálfsögðu ekki von á því að verða breytt að þeim óvitandi í fósturvísaverksmiðju. Undansláttur læknanna er algjör og engin svör hafa enn borist um hvarf fósturvísanna.
Viðbrögð Landsspítalans, Persónuverndar og Landlæknis ásamt lögreglunni hafa verið að með ofurefli hefur verið reynt að þagga niður í Hlédísi og Gunnari. Meðal annars með einelti og opinberum hótunum, upplognum bréfum sem sagt er að hjónin hafi sent út, falsaðri skýrslu Landsspítalans um innbrot í sjúkraskrár, hótunum um margra ára fangelsi fyrir skálduð lögbrot og svo framvegis. Allt er þetta með slíkum eindæmum að það ýtir beinlínis undir að hjónin hafi á réttu að standa, að raunverulegur möguleiki sé fyrir því, að fósturvísar sem þau eru lífforeldrar að hafi orðið að börnum hjá öðru fólki út í bæ. Einungis dna-rannsókn mun leiða sannleikann í ljós. En gegn því er lagst af ofurkappi.
Hvers vegna skyldu þeir sem saklausir eru ekki vilja fjarlægja vafann með einföldu dna-prófi sem sanna myndi sakleysi þeirra?
Þjóðólfur mun fjalla meira um málið á næstunni.