Talíbanar banna myndir af fólki og dýrum

Leiðtogar Taliíbana á blaðamannafundi.

Talíbanastjórn í Afganistan hefur tilkynnt að myndir af fólki og dýrum verði bannaðar. Alræðisstjórn landsins segir myndir af lifandi verum stríða gegn íslömskum lögum.

Saiful Islam Khyber, talsmaður „ráðuneytis um útbreiðslu dyggða og varna gegn löstum“ segir í samtali við AF:

„Lögin gilda í öllu Afganistan… og þau munu koma til framkvæmda smám saman.“

Hann fullyrðir að „þvingun verði ekki beitt við framkvæmd laganna“ og að embættismenn landsins muni þess í stað einbeita sér að því að sannfæra almenning um að myndir af lifandi verum séu í mótsögn við íslömsk lög.

„Þetta snýst bara um að ráðleggja og sannfæra fólk um að þessir hlutir séu í raun á móti Sharia og þá verði að forðast.“

Nýju lögin setja ítarlegar reglur um fréttamiðla. Fyrir utan að mega ekki birta myndir af lifandi verum þá mega fjölmiðlar ekki hæðast eða gera lítið úr íslam eða „vera í andstöðu við íslömsk lög.“

Gilda fyrir alla

Ritskoðuð mynd af fiskrétti á matseðli eins veitingahúss í Lashkar Gah i Afghanistan.

Í Ghazni-héraði sögðu embættismenn blaðamönnum að undirbúa sig fyrir breytingarnar með því að taka myndir úr lengri fjarlægð en áður og taka upp færri stórviðburði „til að venjast þessu.“

Þegar talibanar réðu ríkjum í Afganistan á árunum 1996-2001 voru svipuð bönn í gildi og að sögn AFP hefur margvíslegum ritskoðunarreglum verið komið á aftur, þegar talibanar náðu yfirráðum í landinu eftir brottför Bandaríkjahers.

Meðal annars er sagt frá því, að kaupsýslumönnum og verslunareigendum hafi verið skipað að þurrka út andlit karla og kvenna í auglýsingum, hylja höfuð á gínum með plastpokum og þurrka út augu fiska sem sýndir eru á matseðlum veitingahúsa.

Þrátt fyrir að myndir af lifandi verum séu bannaðar, þá virðist bannið ekki ná til afganskra embættismanna og opinberra starfsmanna. Að sögn Khyber er það vegna þess að „vinna er hafin“ við að innleiða lögin en að þau hafi ekki enn tekið gildi í öllum héruðum. Hann leggur áherslu á að gert sé ráð fyrir að farið sé að lögum og að „nú gildi þau um alla.“

Fara efst á síðu