Svíþjóðardemókratar rústa grænu umskiptunum

Tobias Andersson formaður viðskiptanefndar sænska þingsins er ekki par hrifinn af grænu umskiptunum sem éta upp fé skattgreiðenda. (Mynd FB/Northvolt).

Það gengur ekkert sérstaklega vel hjá djásni grænu umskiptanna í Svíþjóð, fyrirtækinu Northvolt. Fyrirtækið sogar í sig fé og dauðsföllin meðal starfsmanna hrannast upp. Engin ný verksmiðja verður reist í Borlänge eins og tilkynnt var upphaflega. Svíþjóðardemókratinn Tobias Andersson, formaður viðskiptanefndar sænska þingsins, er ekkert yfir sig hrifinn af grænu umskiptunum.

Andersson gagnrýnir störf sænsku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem hann telur einkennast af óheilbrigðri ríkisafskipta- og styrkjastefnu.

Mörkuðum kippt úr sambandi

Hann segir í viðtali við Affärsvärlden:

„Ég tel að starfsemi markaðarins sé kippt úr sambandi, þegar stjórnmálamenn og aðrir stunda þessa dómsdagsorðræðu. Það er óheppilegt. Hættan er sú, að Evrópusambandið verði loftslagshlutlaust á kostnað hagvaxtar og velferðar okkar. Það væri hrikalegt.“

Samtímis leggur Andersson áherslu á, að hvorki hann né Svíþjóðardemókratar neiti því að um loftslagsbreytingar sé að ræða. Hins vegar er það ekki augljóst, að það árangursríkasta sem stjórnmálamenn geti gert sé að senda skattfé til allra þeirra sem segjast vinna gegn loftslagsbreytingum. Sem dæmi bendir Andersson á rafgeymaframleiðandann Northvolt, sem hann telur að megi líta á sem tákn misheppnaðrar grænnar iðnaðarstefnu en hætt var við að byggja verksmiðju í Borlänge.

Northvolt fékk lóðina á ódýru verði og núna finnst stjórnmálamönnum þeir hafa verið sviknir. Andersson finnst einnig, að ákvarðanir Northvolt séu ekki ýkja vel grundvallaðar. Fyrirtækið hefur óseðjandi hungur á ríkisstyrkjum sem það hefur líka fengið. Gengur það inn í græna umskiptapakkann sem margir stjórnmálamenn elska að skreyta sig með í fjölmiðlum. Andersson segir að hann vilji að sjálfsögðu að vel gangi hjá öllum sænskum fyrirtækjum.

Réttmæt gagnrýni

Aðspurður hvort Svíþjóðardemókratar eigi að vera að gagnrýna loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar þegar þeir séu í samstarfi við hana, þá svarar Andersson að samstarf útiloki ekki að hægt sé að spyrja gagnrýninna réttlátra spurninga:

„Þetta kemur að sjálfsögðu skringilega út gagnvart öðrum venjulegum fyrirtækjum sem passa ekki inn í „græna æðið“ og þá sértæku fjölmiðlameðferð sem við sjáum í kringum þessi verkefni. Gagnrýn umfjöllun fjölmiðla er af skornum skammti.“

Fulltrúi Northvolt, Matti Kataja, segir að Tobias Andersson sé velkominn í heimsókn í allar verksmiðjur fyrirtækisins og að viðræður við stjórnmálamenn séu vel þegnar.

Almannafé

Að sögn Matti Kataja hefur Northvolt hingað til fjárfest fyrir 60 milljarða sænskra króna í Svíþjóð og einungis „eitt prósent af því er opinber stuðningur, til dæmis rannsóknarstyrkir.“ En sú fullyrðing stenst engan veginn, því samkvæmt úttekt sem Dagens industri hefur gert, þá eru opinberir styrkir til fyrirtækisins um 88 milljarðar sænskra króna.

Fara efst á síðu