Svíþjóð: 15 ára piltur pantaði og borgaði fyrir þrjú morð

Sofia Jungstedt, dómari, dæmir í sögulegum sænskum dómi unglinga 16 og 15 ára til áratuga fangelsisdóma. (Mynd skjáskot SVT).

Síðasta haust var faðir myrtur í einbýlishúsi fjölskyldunnar við Telefonplan í Stokkhólmi. Næstu nótt voru tvær konur skotnar til bana í húsi í Tullinge. Nýlega voru fjórir einstaklingar dæmdir fyrir morðin. Sá sem pantaði og borgaði fyrir morðin var þá aðeins 15 ára gamall.

Nýja dagblaðið greinir frá: Í skotárásinni á Telefonplan særðust einnig móðir og barn hennar. Síðar var 16 ára unglingur sóttur til saka fyrir morðin og 15 ára piltur fyrir að hafa pantað þau. Árásarmaðurinn, sem núna er orðinn 17 ára, var dæmdur í 12 ára fangelsi og hinn sem núna er orðinn 16 ára hlaut tíu ára fangelsi.

Að fólk undir 18 ára sé dæmt til fangelsisvistar er í raun mjög óvenjulegt í Svíþjóð. Sofia Jungstedt, dómari, segir í viðtali við SVT, að hún muni ekki eftir sambærilegum málum, þar sem svo harðar refsingar hafi verið dæmdar:

„Mér er persónulega ekki kunnugt um neitt mál, þar sem einstaklingur sem var 15 ára þegar glæpurinn var framinn, hefur verið dæmdur í fangelsi. Mér er heldur ekki kunnugt um að neinn sem er orðinn 16 ára, eins og hvatamaðurinn, hafi verið dæmdur í 10 ára fangelsi.“

22 ára karlmaður var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að aðstoða við skotárásina og aðstoða við grófa íkveikju og 16 ára gömul stúlka verður send á unglingahæli fyrir að hafa aðstoðað við morðin.

„Saklausar barnafjölskyldur“

Að sögn saksóknara tengjast morðin stríði glæpaklíkanna. Fórnarlömbin voru hins vegar ekki í tengslum við glæpaklíkurar nema í einu tilviki að um ættingja glæpamanna var að ræða. Helena Nordstrand, saksóknari hefur áður sagt í SVT:

„Fórnarlömb þessara ofbeldisverka eru, eftir því sem ég kemst næst, algjörlega saklausar barnafjölskyldur. Í einni fjölskyldunni voru tengsl í formi skyldleika við glæpamann.“

15 ára pilturinn sem pantaði morðin lofaði hinum unga morðingja 150 þúsund sænskum krónum „á hvern haus.“ Það eru rúmar tvær milljónir íslenskar.

Sofia Jungstedt leggur áherslu á að glæpirnir hafi verið:

„afar grimmir, miskunnarlausir og hreinar aftökur á þremur mönnum og einnig morðtilraunir á tveimur fullorðnum og fimm börnum.“

Dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Fara efst á síðu