Svíkja, plata, pretta

Einu orðin sem hafandi er um embættismannaher ESB er að þeir eru meistarar í að svíkja, plata og pretta. ESB hefur her lögmanna sem kunna alla hugsanlega lagaklæki og eru ofurefli öllum venjulegum dauðlegum. Áður óbirt skýrsla utanríkisráðuneytisins sem núna er titluð vinnuplagg upplýsir um að Ísland hafi aldrei samkvæmt klækjafræðunum hætt að vera umsóknarríki. Önnur birt skýrsla sagði óvart það sama en samkvæmt fyrrverandi utanríkisráðherra er ekkert að marka það, þar sem það var bara ein setning í skýrslu um eitthvað allt annað. 

Annar fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson fer mikinn og segir ekki mark takandi á yfirmanni ESB, sem fullyrðir að Ísland sé umsóknarríki. Ekki tekur nú Brusselhirðin mikið mark á þeim orðum.

Morgunblaðið birti leiðara um fíflaganginn í ESB og hvert orð þar rétt og satt sem lýsir stöðu málsins eftir leikrit sambandsins gagnvart Íslandi síðasta áratuginn samanber niðurlokin:

„Annað samningsríkið lýsti því yfir fyrir mörgum árum og hefur fengið um það vönduð bréf því til staðfestingar, án þess að viðsemjandinn hafi nokkru sinni, árum saman, gert um það athugasemd að þeim viðræðum sé lokið og eru til svarbréf því til staðfestingar. En teldist hin framgangan gild, þá má augljóst vera að varla nokkur maður myndi vilja eiga samskipti við slíka aðila.“

Vandamálið er að til eru einstaklingar á Íslandi sem taka þátt í leikriti ESB og láta Íslendinga borga brúsann. Kjarni málsins er auðvitað sá að ekki er hægt að eiga samskipti við aðila sem svíkja, plata og pretta. Ekkert verklag er til og verður aldrei búið til fyrir neinn sem vill skilja við ESB, hvort sem er að draga umsókn um aðild til baka eða að ganga úr sambandinu eins og Bretum tókst þó að gera með skelfilegum kostnaði, til dæmis er fiskveiðifloti þeirra í dag ekki hálfdrættingur á við flotann fyrir aðild.

Eina markmið ESB er að byggja heimsveldi á meginlandinu til að storka Bandaríkjunum og Rússlandi. Það mætti halda að stríðsæsingurinn gegn Rússum sé hefnd fyrir ófarir nazista í seinni heimsstyrjöldinni. Enginn skal efast um alvöru framkvæmdastjórnar ESB um stríðsáætlun, því ESB er ekkert „friðarbandalag“ lengur heldur hefur breytt fjárlögum í stríðsfjárlög og umbreytir sér í hernaðarsamband. 

Fimmta herdeild krata og komma á Íslandi hefur leikið sér að eldinum og því miður hafa óvandaðir einstaklingar úr flokkum sem síst skyldi dregist með í þann ljóta leik. Afleiðingin getur því miður kveikt það stórbál sem rænir Íslendinga auðlindum sínum og gerir þá að valdlausum þrælum í eigin landi. Og Ísland er þegar ánetjað eins og umræðurnar um umsóknarríki eða ekki umsóknarríki bera með sér. 

Það er ekkert víst að staðan hefði verið önnur, þótt Alþingi hefði formlega samþykkt að draga tillöguna til baka. Í samskiptum við ESB er það bara afstaða ESB sem reiknast.  

Alþingismönnum er mikill vandi á höndum að finna leið til að höggva á þann hnút sem búið er að binda þjóðina í. Fyrir utan fólkið sem vill vera í hlutverki dyramottu fyrir kommissjónerana í Brussel, þá hefur þjóðin ekki gert neitt rangt. 

En við skrímsli er að etja. Það krefst að allir jákvæðir kraftar snúa bökum saman til að verja lýðveldið Ísland. 

Óður Evrópusambandsins:

Svíkja, plata, pretta
pjattið brátt mun detta.
Skríkja, grenja, gretta
glottið djúpa bretta.

Fara efst á síðu