Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, segist vilja koma á fót fullvalda örríki fyrir Bektashi-regluna, sem er samfélag sjía-múslima og súfi, í höfuðborginni Tirana. Meðlimir reglunnar eru í sjöunda himni en margir aðrir eru ekki eins spenntir.
Örríkið er borið saman við Vatíkanið og yrði um tíu hektarar að stærð á þeim stað, þar sem Bektashi-reglan hefur haft höfuðstöðvar sínar í meira en 100 ár. Hið fullvalda ríki Bektashi-reglunnar hefði sín eigin landamæri, vegabréf og stjórn. Að sögn Edi Rama verður svæðið:
„Fullvalda ríki, sem er ný miðstöð hófsemi, umburðarlyndis og friðsamlegrar sambúðar.“
Leiðtogi reglunnar, Edmond Brahimaj, sem gengur undir nafninu Baba Mondi, fagnar tillögunni sem „óvenjulegu framtaki“ sem tákni „nýtt tímaskeið trúarlegs umburðarlyndis og friðar í heiminum.“ Hann segir í yfirlýsingu:
„Bektashi-reglan, sem er þekkt fyrir boðskap um frið, umburðarlyndi og trúarlega sátt, mun fá fullveldi að hætti Vatíkansins. Það mun gera okkur kleift að stjórna sem sjálfstæður aðili í trúarlegu og stjórnarlegu samhengi.“
Bektashi er samfélag sjíta og súfi og er talið sérstaklega opin grein íslams. Reglan var stofnuð í Ottómanveldi á 13. öld en Kemal Atatürk sendi hana í útlegð ár 1920. Önnur múslímsk trúarbrögð ofsækja Bektashi sem villutrúarfólk. Samkvæmt síðasta manntali eru um 50% af 2,4 milljónum íbúum Albaníu múslímar. Flestir eru súnní-múslímar og um tíu prósent múslíma tilheyra Bektashi-reglunni. Aðrir íbúar eru flestir kaþólskir eða rétttrúnaðar kristnir.
Verði af þessari stofnun múslímska ríkisins, þá hafa sumir áhyggjur af því, að Albanía verði stimplað sem „íslamskt ríki.“