Ríkisstjórn Slóvakíu hefur ákveðið að gera tímabundið hlé á kaupum á bóluefnum gegn Covid-19, þar til vísindaakademía landsins hefur gert öryggisúttekt á bóluefninu. Robert Fico forsætisráðherra tilkynnti þetta á blaðamannafundi á miðvikudag.
Ástæðan er samkomulag fyrri ríkisstjórnar frá 2023 sem skyldar Slóvakíu til að kaupa 300.000 bóluefnisskammta til viðbótar fyrir um það bil 5,7 milljónir evra. Ekki var minnst á framleiðendur sérstaklega. Robert Fico sagði:
„Við höfum sérfræðiálit frá viðurkenndum sérfræðingi sem segir að bóluefnin sem notuð voru í Slóvakíu hafi innihaldið gríðarlegt magn af DNA og öðrum efnum sem framleiðandinn tilkynnti ekki í fylgiseðlinum. Þess vegna er það rétt ákvörðun að taka hvorki á móti bóluefnum né greiða fyrir þau bóluefni sem eftir eru.“
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar kemur í kjölfar tilmæla frá Peter Kotlar, sérstökum rannsakanda ríkisstjórnarinnar á stjórn kórónufaraldursins. Hann hefur einnig áður dregið öryggi mRNA-bóluefna í efa.
Ætla að kæra yfirvöld fyrir að breiða út hræðslu
Lyfjaeftirlitið í Slóvakíu, SUKL, mótmælir ríkisstjórninni og telur að viðvaranir sérfræðinga skorti vísindalegan stuðning og séu hættulegar en hins vegar sé ekkert að bóluefnunum. SUKL íhugar að leggja fram kæru gegn stjórnvöldum fyrir að „breiða út hræðslu.“
Vinstri-frjálslyndi stjórnarandstöðuflokkurinn Framfarasinnaða Slóvakía gagnrýnir einnig ríkisstjórnina fyrir ákvörðunina. Vangaveltur eru um að Fico hafi aðrar hvatir en raunverulegar áhyggjur af bóluefnum og fullyrt er að stjórnvöld styðjist við samsæriskenningar til að beina athyglinni frá vandamálum á öðrum sviðum. Flokkurinn segir Fico vera að „fela eigin pólitísk mistök á bak við samsæriskenningar Kotlars.“
Fico forsætisráðherra lét ekki bólusetja sig gegn Covid-19 og er gagnrýninn á hvernig fyrri ríkisstjórnir hafa tekist á við faraldurinn og fjöldabólusetningar. Á meðan faraldurinn geisaði leiddi hann einnig mótmæli gegn þeim takmörkunum sem voru í gildi á þeim tíma. Hvorki Pfizer né Moderna hafa tjáð sig um málið enn sem komið er.
Varð fyrir morðtilræði
Fico varð fyrir morðtilræði á útifundi fyrir rétt tæpu ári síðan. Frjálslyndur öfgamaður skaut hann í höfuðið og brjóstið og er það kraftaverk að hann komst lífs af en hann lá dágóða stund milli heims og heljar.
Ávarp Fico má sjá og heyra í á X hér að neðan:
To ignore the expert findings on the quality of COVID-19 vaccines used in Slovakia would be extremely irresponsible. pic.twitter.com/3xBVHVhLak
— Robert Fico 🇸🇰 (@RobertFicoSVK) April 22, 2025