Það var hressilegt að vanda að ná viðtali við hinn kunna og jafnframt virta hæstaréttarlögmann Jón Magnússon. Jón hefur víðtæka reynslu og þekkingu sem hæstaréttarlögmaður og einnig hefur hann verið ötull sjálfstæðismaður í gegnum tíðina sem unnir þjóð sinni og vill að hún sé sjálfstæð, fullvalda og frjáls.
Öldurót heimsmálanna fer vaxandi í skugga dökkra skýja og óveðurs við sjóndeildarhringinn. Ritfrelsi er á hverfandi hveli og vestræn ríki keppast um að setja aukin haturslög sem nota má gegn gagnrýnendum á stefnu stjórnvalda. Nýlega var forstjóri Telegram handtekinn í París og forstjóri Rumble flúði frá Evrópu til að komast hjá handtöku að sögn. Frásagnir meginmiðla einkennast af meðvirkni með spillingu og ráðandi valdhöfum og hlutverk óháðra miðla að veita valdhöfum aðhald horfið út í vindinn.
Ódæðisverk glæpamanna hverfa ekki við sýningu fjölmiðla á „góða innflytjandanum”
Mér fannst eðlilegt að byrja að spyrja Jón um afstöðu hans til þöggunar meginmiðla og vissra stjórnmálaafla um þjóðerni útlendra ofbeldismanna eins og nýlega í hnífastunguárás í Solingen í Þýskalandi. Í Svíþjóð hefur þetta lengi tíðkast en valkostamiðlar birta sannleikann. Jón sagði:
„Ef verið er að fela ákveðna hluti í sambandi við það sem gerist, þá eru fréttirnar ófullkomnar. Af hverju er verið að gera þetta? Þetta er ekki bara í Þýskalandi sem þannig hefur verið stað að málum. Þetta er í Bretlandi, Frakklandi – jafnvel í Danmörku var þetta svona, Danir hafa breytt þessu nýlega.”
Jón vísar í könnun sem sagt var frá í leiðara Morgunblaðsins:
„En af hverju? Jú frumástæðan sem höfð var uppi til að byrja með, var að það myndi skapa allt of mikinn óróleika í þjóðfélaginu. Og af hverju átti það að skapa óróleika í þjóðfélaginu? Vegna þess að það sýndi fram á það, að þessar eilífu sýningar á góða innflytjandanum, sem að fjölmiðlar eru með og ýmis félagasamtök, á ekki við rök að styðjast. Vandamálin í samfélaginu sem eru samfara því að flytja inn fólk af ólíkri menningu og ólíkum siðum eru svo gríðarleg. Þar sem upplýsingar eru birtar, kemur í ljós, að afbrotatíðni – hvaða tegund sem er, er svo margfalt meiri hjá innflytjendum, sérstaklega af ákveðnu þjóðerni og þá eru menn að tala um eins og Afgana, Sýrlendinga, ég tala nú ekki um Palestínumennina sem hafa verið í nokkrum sérflokki…..”
„Þegar fjölmiðlarnir þegja yfir grundvallaratriðum í sambandi við fréttir, þá eru þeir í raun að birta rangar fréttir að hluta.”
„Mér finnst mikilvægt að fólk sé upplýst um það sem er að gerast í landinu hjá þeim. Og að það sé rætt um þessi mál af heiðarleika og opið, og það sé þá hægt að bregðast við með eðlilegum hætti. Ekki stinga höfðinu í sandinn eins og verið er að gera.”
Farið var yfir víðan völl til dæmis árása pólitísks rétttrúnaðar á sögu vestrænnar menningar en verið er að stunda sögufölsun í stórum stíl t.d. með breytingu litarháttar þekktra sögupersóna eins og Eðvarðs Bretakonungs. Verst er þó, þegar ráðist er aftan að látnum mönnum eins og Friðriki Friðrikssyni æskulýðsfrömuði á Íslandi með rógburði og ósannanlegum sögum. Vinstri sinnar reyndu að breyta sögunni með því að fjarlægja styttu hans við Lækjargötu. Jón nefndi Edward Heath sem dæmi en hann var ásakaður um barnaníð gegn drengjum sem síðan kom í ljós að var tómur uppspuni.
Jón sagði einnig frá því, að hann hefði þýtt bók Douglas Murray „Dauði Evrópu” en Murray sá fyrir þróun dagsins í Evrópu fyrir mörgum árum síðan.
Hlýða má á viðtalið hér að neðan: