Sænska vindorkan að hruni komin

Tvö gjaldþrot í milljarða klassanum, engar nýjar pantanir á túrbínum í sex mánuði og innilokaðir ríkisstyrkir í fjármálaráðuneytinu. Sænska vindorkan er stödd í sinni verstu kreppu hingað til. Talsmenn vindorkubransans vara við því, að ástandið gæti leitt til „næstum algjörs hruns.“

Vindorkuiðnaðurinn í Svíþjóð stendur á óstöðugum grunni. Tvö stór gjaldþrot hafa þurrkað út meira en milljarð sænskra króna. Á sama tíma eru liðnir sex mánuðir án þess að nokkur ný pöntun hafi borist á nýjum túrbínum. Samtök í bransanum, Green Power Sweden, segir alvarlegt skarð komið í þróun vindorkunnar.

Og þær 340 milljónir króna sem ríkisstjórnin lofaði sveitarfélögunum sem hvata til að samþykkja vindorkuverkefni hafa ekki enn verið greiddar út.

Ina Müller Engelbrektson, lögfræðingur hjá Green Power Sweden, segir ástandið dapurlegt í athugasemd við Realtid: „Mjög dapurlegt. Það þarf virkilega að koma peningunum til skila.“

Bylgja gjaldþrota lamar vindorkuiðnaðinn

Andstaða sveitarfélaganna er gríðarleg. Bráðabirgðatölur sýna að rúmlega 95% allra núverandi verkefna verða stöðvuð í ár. Í fyrra fékk aðeins eitt af 16 verkefnum á landi grænt ljós að hluta til. Gjaldþrotsbylgjan lamar iðnaðinn. Mörg fyrirtæki hafa þegar farið á hausinn og fleiri eru væntanleg.

Kalix Wind fór í gröfina eftir að hafa tapað deilu um tryggingabætur. Ástandið var enn verra fyrir þýsk-eigða vindorkuverið í Aldermyrberget við Skellefteå sem fór á hausinn eftir misheppnaða endurskipulagningu. Gjaldþrotaskiptastjórinn Hans Andersson hjá lögmannsstofunni Kaiding segir:

„Ég deili mati þeirra að mörg vindorkufyrirtæki standa frammi fyrir mjög stórum áskorunum í dag og að hætta er á að fyrirtæki í greininni fari á hausinn.“

Fjárfestar fara til landa með galopinn ríkissjóð

Hluti af vandamálinu er lágt rafmagnsverð í Norður-Svíþjóð sem er að stærsta hluta til vegna vindorkunnar sjálfrar.

Christian Holtz, raforkumarkaðsgreinandi hjá Merlin & Metis, varar við ástandinu. Hann útskýrir að rafmagnsverð sé sérstaklega lágt á þeim tímum þegar það er rok, vegna þess að vindorkan hefur áhrif á rafmagnsverðið. Það verður erfitt fyrir framleiðendur að ná arðsemi í nýjum fjárfestingum.

Alþjóðlega fjármagnið er á flótta. Peter Alestig lýsir stöðunni sem nánast algjöru hruni í DN:

„Áhugi á Svíþjóð, sem ekki alls fyrir löngu var talinn mjög áhugaverður markaður fyrir fjárfestingar í vindorku, er skyndilega orðinn ískaldur.“

Stórir fjárfestar velja núna Þýskaland og Suður-Evrópu, þar sem leyfisferli eru hraðari og ríkisstyrkir á kostnað skattgreiðenda er til staðar.

Sveitarfélögin bíða eftir styrkjum

Fyrir sveitarfélög sem þegar hafa samþykkt vindorkuverkefni er staðan að verða sífellt erfiðari. Sveitarfélagið Ånge hafði reiknað með næstum 16 milljónum skattkrónur í ríkisstyrk. Bæjarfulltrúinn Erik Lövgren segir:

„Fyrir sveitarfélag með rétt rúmlega 9.000 íbúa eru það ansi miklir peningar. Við erum að reikna með þessum smáaurum.“

Ebba Busch, viðskipta-, iðnaðar- og orkumálaráðherra, fullvissar að styrkir berist úr ríkissjóði og afsakar töfina með því að segja að „hönnun styrkjakerfisins sé flókin“.

Fara efst á síðu