Lettland sendir frá sér eftirfarandi viðvörun: Ruglaði, stuttklippti ferðamaðurinn í sem ráfar um í skóginum á gönguskóm með landakort í hendi er kannski alls ekkert að leita að skógarmúsum til að ljósmynda– heldur er hann að kortleggja varnir landsins. Í nýjustu ársskýrslu sinni telur leyniþjónusta Lettlands upp þau merki sem benda til þess að um rússneskan skemmdarverkamann sé að ræða og ekki er útilokað að ímyndunaraflið hafi farið á flug.
Þeir geta litið út eins og áttavilltir göngumenn: óhreinir, þungt hlaðnir og í fötum sem eru ekki mjög hagnýt til skógarvistar. Samkvæmt leyniþjónustu Lettlands, MIDD, gætu þessir menn í raun verið dulbúnir rússneskir njósnarar.
Í nýrri skýrslu benda yfirvöld á allt frá „ósamræmanlegum íþróttafötum“ til „undarlegra spurninga til heimamanna“ sem merki um rússneska njósnar. Grunaðir njósnarar eru sagðir halda sig nálægt herstöðvum, þykjast vera starfsmenn hjálparsveita eða eru að tjalda á afskekktum svæðum. Þeir eru sagðir sýna furðu lítinn áhuga á náttúrunni til þess að geta verið sannir útivistarmenn.
Það er talið grunsamlegt ef viðkomandi hefur með sér sjúkrakassa með plástrum og sáraumbúðum, kort eða samskiptabúnað. Það er ekki ljóst hvar mörkin liggja svo maður átti sig á því að hér er á ferðinni njósnari Pútíns en ekki neinn venjulegur útivistaráhugamaður.
Alvara málsins – eða vangaveltur?
Viðvaranirnar koma samtímis og mörg lönd á svæðinu – þar á meðal Nató-nýliðarnir Svíþjóð og Finnland – hafa uppfært upplýsingabæklinga sína um viðbúnað vegna stríðsástands. Í Póllandi er verið að vinna að slíkum leiðbeiningum og í Noregi hefur nýlega verið gefin út bók um hvernig hægt er að lifa af einn í viku ef neyðarástand skellur á.
Skilaboðin eru skýr: heimurinn er óöruggari en hann hefur verið í langan tíma og ógnar bæði lífi og heilsu fólks. En núna eiga svo kallaðir „preppers“ sem þjálfa sig í að geta lifað af kreppur eða stríð, á hættu að vera grunaðir um að vera njósnarar fyrir óvininn sem þeim hefur verið fyrirskipað að verja sig gegn.
Washington Post greinir frá því að Lettland geri meira en að ráðleggja notkun á sveifarútvarpstæki. Varað er við dularfullum tjaldgestum með grunsamlegan rússneska hreim og í felulitabuxum.
Frá njósnum til heilbrigðrar skynsemi
Reynslan frá Úkraínu sýnir að rússneska öryggisþjónustan er dugleg að villa á sér heimildir. Lettneska leyniþjónustan varar fólk við að grípa inn í ef grunur leikur á um að rússneskir njósnarar eða skemmdarverkahópur séu á ferðinni. Landsmenn eru beðnir um að láta James Bond stílinn vera áfram á hvíta tjaldinu:
„Ef þú telur að þú hafir uppgötvað skemmdarverkahóp á lettnesku landsvæði, mælir MIDD ekki með því að þú grípir inn í sjálfur. Þess í stað skaltu tilkynna það lögreglu, öryggisþjónustu eða næstu herdeild.“
Það sem lítur út eins og ferðamaður gæti í raun verið ferðamaður
Á þeim tíma þegar stórveldisleikurinn kemur nær daglegu lífi almennings telja yfirvöld, að það sem í fyrstu kann að virðast vera ofsóknarbrjálæðislegur tónn í boðskapnum hafi alvarlegan undirtón vegna óvinarins í austri.
Gagnrýnendur velta hins vegar fyrir sér hversu margir saklausir sveppatínslumenn verða grandskoðaðir með grunsamlegu augnaráði við skógarjaðarinn. Það sem lítur út eins og ferðamaður, gengur eins og ferðamaður og talar eins og ferðamaður – gæti í rauninni bara verið ferðamaður.