Rafmagnið margfalt dýrara en sagt var – 190 sinnum dýrara í Gautaborg en Luleå

Allt tal um aukna hagræðingu og minni kostnað er bara pólitísk galdraþula til að blekkja rafmagnsnotendur. Almenningur í Svíþjóð fær aldeilis að finna fyrir himinháu rafmagnsverði þessa dagana. Samkvæmt „flæðislíkani“ átti að dreifa kostnaði „réttlátt“ milli notenda hvar sem er í Svíþjóð. Öfugmælin hafa sjaldan verið jafn dýr fyrir buddur venjulegs fólks og verðmunur á milli raforkusvæða í Svíþjóð hefur aldrei verið meiri.

Allt tal um hagræðingu og samkeppni sem átti að tryggja lægra verð til neytandans sýnir sig vera blekking tóm. Fréttaritari man ekki lengur hversu margar greinar hann hefur skrifað bæði í Þjóðólf og annars staðar til að vara Íslendinga við orkumódeli Evrópusambandsins sem hefur tekist að breyta norrænni vistvænni og ódýrri raforkuframleiðslu í mjólkurkú fyrir dýra, ósamkeppnishæfa raforkuframleiðslu á meginlandinu. Það er mikil háðung að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa látið taka sig út í þetta fúafen ESB og keyrir áfram með „grænu orkuskiptin“ sem eyðileggur áratuga farsæla raforkustefnu Íslendinga. Sænska reynslan af orkukerfi ESB er að lágmarki 200 milljónir sænskar krónur aukakostnaður fyrir neytendur – í hverri viku. Talan var upprunalegt mat og er því sjálfsagt orðin miklu hærri núna.

Rökin sem notuð voru fyrir kerfisbreytingunni voru þau, að raforkuflutningur milli og innan Norðurlanda yrði hagkvæmari. Aukin hagkvæmni átti að leiða til lægra raforkuverðs en þannig hafa málin ekki þróast. Þvert á móti, rafmagnsverð er miklu hærra og á eftir að hækka enn frekar. Hversu mikið veit enginn, kerfið býður upp á daglegar óvæntar, óþægilegar verðhækkanir sem „enginn sá fyrir.“ Per Tryding hjá sænska viðskiptaráðinu segir í athugasemd við sænska Viðskiptablaðið:

„Kerfisbreytingin mun leiða til hærra og ófyrirsjáanlegra raforkuverðs fyrir venjulega viðskiptavini og fyrirtæki.

Nýlega birti blaðið Atvinnulífið skýringarmynd sem sýndi mikinn mun á raforkuverði fyrsta mánuðinn eftir að fyrirtækið Sænska orkunet innleiddi hið nýja reiknilíkan „Flowbased.“ Verðhækkun var veruleg miðað við sama tímabil áður.

Bengt Ekenstierna, skilgreinandi raforkumarkaðarins, sagði fyrir nokkrum dögum að fullyrðing Sænska orkunets um að nýja kerfið myndi gagnast Suður-Svíþjóð væri einfaldlega röng. Hann segir í viðtali við Atvinnulífið:

„Sænska orkunet hefur áður haldið því fram að flæðisbundna líkanið gæti gagnast Suður-Svíþjóð, að það yrði lægra raforkuverð. Það er algjörlega ástæðulaust að halda slíku fram og hefur nú sannast að þeir höfðu rangt fyrir sér.“

Rándýrt rafmagn í dag 11. desember 2024 – búist við áframhaldandi hækkunum, þegar kuldinn kemur

Tölur frá Nord Pool markaðinum sýndu að miðvikudagsverð í Mið-Svíþjóð yrði hátt. Sá ótti rættist og verðið fyrir rafmagnið hækkaði meira en 135% samanber myndina hér að neðan. Mismunandi verð er á hverjum tíma miðað við rafmagnsflæðið og dýrast við kvöldmatargerð eftir kl. 17.00. Hér er einungis um grunnverð að ræða og kostnaður vegna raforkuvottorðs, álags, orkuskatts, virðisaukaskatts og netgjalda bætist við.

Raforkumarkaðssérfræðingurinn Christian Holtz segir að það sem ýti verðinu upp í Svíþjóð sé að raforkuframleiðslan er háð vindorku og samtengingu við aðra þjóðir í Evrópu samkvæmt skilmálum ESB. Hann útskýrir:

„Tímabil lítillar vindorkuframleiðslu í Þýskalandi hefur afgerandi áhrif á hátt raforkuverð að undanförnu.“

Þýskt raforkuverð í Svíþjóð

Kortið sýnir raforkuframleiðslu miðað við hversu vistvæn hún er. Gæni liturinn sýnir vistvæna raforkuframleiðslu, dökkbrúnt og svart. Dýr aukaorka til dæmis í Þýskalandi hleypir orkuverðinu upp.

Að sögn Holtz virðist nýja flæðismiðaða reikningsaðferðin Flowbased ýta upp verðlagi í Svíþjóð til jafns við það sem er í Þýskalandi sem þjáist af orkuskorti eftir að hafa lokað kjarnorkuverum.

„Sérstaklega hefur dregið úr verðmun síðasta mánuðinn á milli raforkusvæða 3 og 4 í Svíþjóð og Þýskalands.“

Rafmagnsmarkaðssérfræðingurinn Bengt Ekenstierna, sem lengi hefur verið gagnrýninn á Flowbased, er sammála og segir að í stað þess að lækka verð í Suður-Svíþjóð þá hækki það rafmagnsverðið. Hann telur að raforkusvæði 4, sem er syðsti hluti Svíþjóðar, sé að renna meira og meira saman við Þýskaland.

Hann telur einnig að verð muni hækka enn frekar núna, þegar vetrarkuldinn kemur.

Sjá nánar hér

Fara efst á síðu