Stærsta fyrirtæki á Norðurlöndum í rafgeymaframleiðslu, Northvolt í Svíþjóð, tilkynnti nýlega uppsögn 1600 starfsmanna, um fjórðung vinnuaflsins. Fyrirtækinu var lýst sem brautryðjanda grænna umskipta í bílaiðnaðinum, ekki bara í Svíþjóð heldur í Evrópu og heiminum. Ríkisstjórnir og bankar stóðu í biðröð til að lána fé til verkefnisins. Núna er draumurinn orðinn að kínverskri hryllingsmartröð í Svíþjóð og tímaspursmál, þar til fyrirtækið verður gjaldþrota. Christian Sandström, dósent við Chalmers, segir fyrirtækið mest virka sem innantómt vörumerki fyrir 30 ára gamla kínverska tækni.
Græna svindlið notar sömu aðferðir í öllum greinum. Brosandi grænjaxlar stjórnmálanna stela peningum skattgreiðenda til að lána og gefa „grænum brautryðjendum“ sem nota loforð ríkisins til að fá himinhá lán frá bönkum til að kaupa gamla tækni og drasl frá Kína. Verkefnin eiga að sögn að minnka kolefnislosun í veruleikaþætti alþjóðasinna um hamfarahlýnun jarðar. Að sögn Dagens Industri hefur Northvolt fengið 88 sænska milljarði (um 1 200 milljarðar íslenskra kr) af skattpeningum Svía frá sveitarfélögum, opinberum fyrirtækjum, ríkisstofnunum, þýska og kanadíska ríkinu ásamt ESB. Að auki hefur fyrirtækið tekið himinhá lán með ríkisábyrgð sem lenda á herðum skattgreiðenda ef fyrirtækið getur ekki endurgreitt lánin.
Að sögn sænska Viðskiptablaðsins stjórnar kínverska ríkisfyrirtækið Wuxi Leads mikilvægasta hluta rafgeymaframleiðslu Northvolt í Skellefteå. 574 kínverjar eru við störf í verksmiðjunni einkum við samsetningu rafgeymanna og áfyllingu rafgeymavökva. Þetta er engan veginn nútímatækni Kína, því hana lætur Kína ekki frá sér, heldur er um 30 ára gamla tækni að ræða sem krefst handleiðslu kínverja. Aðrir starfsmenn notuðu þýðingarþjónustu Google til að reyna að skilja hvernig vélarnar virkuðu. Byggingarverkfræðingur með innsýn í viðskipti Northvolt segir við Viðskiptablaðið:
„Það voru nokkur hundruð Kínverjar á staðnum. Þeir höfðu fullkomna stjórn á öllu og gerðu nákvæmlega það sem þeim sýndist.“
Vörumerki í Baugsstíl til að slá lán um allar jarðir
Northvolt er lýst sem enn einu galtómu grænu sænsku vörumerki sem notað er fyrir gamaldags kínverska tækni. Aðaltilgangur vörumerkisins Northvolt er að ná í stjórnmálamenn sem nota skattfé almennings til að „fjárfesta í grænum umskiptum.“ Síðan er farið í bankann með loforð ríkisins og há lán slegin til verkefnisins, oft fengin með ríkisábyrgð. Man einhver eftir fjársvikamyllu Baugs og Icesave?
Fjármagnið er ekki notað til að þróa eigin tækni til að framleiða rafgeyma, heldur til að kaupa gamla kínverska tækni og borga stjórnendum himinhá laun. Kína selur einungis gamla tækni sem ekki getur keppt við þeirra eigin nútíma tækni, þannig að halda mætti að um meðvitaða skemmdarstarfsemi á efnahag viðkomandi landa sé að ræða sem þá gerði Kína kleift að yfirtaka markaðinn.
Stjórn Northvolt hefur farið fram á að sænska ríkið borgi tapið og komi inn sem meðeigandi í fyrirtækið. Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur fram að þessu neitað að verða við þeirri beiðni. Sandström segir við Aftonbladet, að Northvolt verði gjaldþrota. Fyrirtækið var rekið með 12 milljarða sænskra króna halla í fyrra!