Pólland afnemur réttindi hælisleitenda

Til þess að takast á við hættu á auknum straumi ólöglegra innflytjenda um Hvíta-Rússland, þá mun Pólland afnema tímabundið réttindi hælisleitenda. Búist er við að það verði tilkynnt þegar ríkisstjórn landsins kynnir ný lög um fólksflutninga í dag.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur varað við því að hann muni ekki virða eða innleiða innflytjendalög ESB „ef þau ógna öryggi Póllands.“ Hann leggur áherslu á að „enginn mun sannfæra mig eða neyða til að skipta um skoðun.“

Í ræðu um helgina sagði Tusk að hann yrði „harður og miskunnarlaus“ gagnvart ólöglegum fólksflutningum. Hann sagði að Pólland yrði að hafa 100% stjórn á því, hverjir koma inn í landið.

Búist er við að Tusk muni kynna nýjar reglur um fólksflutninga á ríkisstjórnarfundi í dag 15. október. Tusk sagði:

„Eftir að hafa samþykkt þessa fólksflutningastefnu munum við draga úr ólöglegum fólksflutningum til Póllands og halda þeim í lágmarki. Við munum uppræta þær aðferðir sem sniðganga pólska hagsmuni og brjóta gegn öryggi Pólverja og pólska ríkisins.“

Fyrir tveimur árum reisti Pólland 190 kílómetra langan múr á landamærum við Hvíta-Rússland til að stöðva straum ólöglegra innflytjenda þaðan. Rússar eru ásakaðir að standa að baki straumnum „til að koma á enn frekari óstöðugleika í ríkjum ESB.“

Innflytjendur frá Miðausturlöndum

Þrátt fyrir að dregið hafi úr aðstreyminu hefur opinber umræða um málið haldið áfram, sérstaklega eftir að hermaður var stunginn af ólöglegum innflytjanda í maí s.l. Ríkisstjórnin lét þá setja upp 200 metra langt varnarsvæði við landamærin.

Þúsundir hælisleitenda, aðallega frá Afganistan, Sýrlandi og Kúrdahéraðinu í Írak, reyndu að komast til Póllands gegnum Hvíta-Rússland 2021. Hvítrússnesk yfirvöld ýttu undir ferðalög til landsins, aðallega í gegnum ferðaskrifstofur í Miðausturlöndum. Mannsmyglarar blekktu farandfólk til að trúa því, að hér væri greið leið inn í ríki ESB. Þúsundir manna fengu vegabréfsáritanir og flugu til Minsk til þess síðan að halda áfram ferð sinni að landamærunum að Póllandi.

Fara efst á síðu