Múslimar í meirihluta í skólum Vínarborgar

Í fyrsta skipti eru múslímskir nemendur orðnir stærsti trúarhópurinn í skólum Vínarborgar. Samkvæmt nýjum tölum eru þeir 41,2% nemenda en kristnir nemendur eru komnir niður í 34,5%. Hinar hröðu lýðfræðilegu breytingar valda því að stjórnarandstöðuflokkurinn FPÖ í Austurríki sendir frá sér viðvörun.

Maximilian Weinzierl, formaður ungliðahreyfingar FPÖ segir:

„41,2% múslímskir námsmenn – það er ekki lengur minnihluti, þetta er nýi meirihlutinn. Þetta er ekki innflytjendamál lengur, verið er að hrekja kristindóminn á flótta.“

Tölurnar koma frá skólaráði borgarinnar, sem er undir forystu Bettina Emmerling (NEOS). Sýna gögnin að þýska er orðin tungumál númer 2 í sífellt fleiri skólastofum. Samkvæmt FPÖ eru austurrísk börn ekki aðeins í minnihluta heldur á hrakhólum og verið er að skipta út íbúum í eigin landi.

Hannes Amesbauer, talsmaður flokksins í öryggismálum, segir hlutina beint út:

„Austurríkismenn verða bráðum útlendingar í sínu eigin landi.“

Á sama tíma berast fréttir af ógnvekjandi fjölgun vandamála í skólunum. Kennarasambandið varar við því að starfsfólk segi upp störfum „í hópum saman“ og foreldrasamtök segja frá ringulreið í kennslustofum þar sem fáir nemendur tala þýsku. Evelyn Kometter, forseti austurríska foreldrasamtakanna segir:

„Kennarinn þarf að endurtaka hverja setningu 10-12 sinnum áður en hún er skilin.“

Viðbrögð stjórnvalda hafa verið að byggja fleiri skóla – oft með því að malbika yfir græn svæði til að koma upp gámakennslustofum. Ekki sést til neinnar heildarlausna á vandanum.

Samtímis kynna menntamálayfirvöld nýja skólagrein sem kallast „Að lifa í lýðræði“ til að efla umburðarlyndi og gildi frá unga aldri. FPÖ telur hins vegar, að þetta taki ekki á kjarnavandanum sem er að misheppnuð innflytjendastefna hefur núna leitt til veruleika þar sem austurrísk börn eru jaðarsett í skólum í eigin landi.

Fara efst á síðu